5.9.10

Nú er langt síðan síðast.

Í rauninni ætla ég ekki að skrifa langt blogg í þetta skiptið heldur láta myndirnar tala sínu máli.  Mér fannst í raun sumarið í ár vera frekar viðburðalítið en svo þegar ég sest niður og set inn allar myndirnar þá sé ég að það hefur bara heilmargt gerst hjá okkur og við verið bara nokkuð dugleg:-) Vorboðinn var heimkoma Ástu Sigrúnar sem er alkomin (í bili alla vega).  Hún útskrifaðist frá Edinborg með glæsibrag í júlí og er nú að byrja í meistaranámi við HÍ.  Hún sem sagt kom og fór,- það er að segja hún er nú orðin Kópavogsbúi og fer vel um hana þar. Við héldum upp á útskriftina hennar með fjölskylduboði og svo heljar partýi um kvöldið með vinum hennar og frændsystkinum.
Hér fyrir ofan er BA hon. Ásta Sigrún Magnúsdóttir heima í Lyngbergi rétt orðin Kópavogsbúi.  Þegar hún var nú blessunin búin að tæma herbergið sitt hér heima þá gerði ég með hjálp Magga míns og fl. mér lítið fyrir og hreiðraði um mig í því.  Ég hef aldrei haft neina aðstöðu í húsinu fyrir áhugamálin mín en nú er bara heilt herbergi fyrir mig.  Maggi og Inga máluðu herbergið (á meðan ég undirbjó útskrift;-)
Síðan kom hann pabbi minn og við parketlögðum.  Ásta Sigrún skildi þennan fallega skáp eftir og málaði ég hann með sama lit og veggina í herberginu. 
Kemur mjög vel út að mínu mati.
 Keypti mér þennan líka fína stól, lampann og borðið í IKEA (hvar væri maður ef ekki væri IKEA á Íslandi?
Þarna setti Maggi minn upp borð fyrir mig og hillur og fleira.  Á þessu borði ætla ég að vera með skurðarmottuna fyrir bútasauminn og efnin mín og fleira tengt bútasaumi og skrappi í skúffunum og hillum.  Skúffueiningarnar eru á hjólum og borðplata ofan á þeim svo ég get dregið þær til mín þegar ég er að vinna við hitt borðið. Eins og sjá má þá er þetta borð frekar hátt og er til þess að standa við það og vinna.  Ásta Sigrún gaf mér þennan segul sem er á veggnum hægra megin við borðið og eru box á honum fyrir títuprjóna og tölur og fl
 
Þetta borð er síðan í hæð til að sitja við og vinna.  Maggi hengdi slár fyrir ofan bæði borðin og gaf mér þessar skemmtilegu leirkrúsir sem eru flottar geymslur fyrir alls konar verkfæri og fl.
Ég hef nú ekki verið dugleg við handavinnu í sumar, ég náði þó að klára kjólinn og peysuna á Hildi Sögu.  Myndin hér að ofan er ekki í nógu góðum litum (sést betur í síðasta bloggi) en þetta kom reglulega skemmtilega út.  Kjóllinn er heldur stór á hana en hún vex svo hratt að hann verður passlegur áður en langt um líður.
Þetta teppi prjónaði ég handa henni Evu litlu frænku minni sem fæddist í júlí.  Hún er fyrsta barn Þorra míns og Emmu.
Við Maggi fórum síðan norður í land í eina viku, vorum á Akureyri fyrri hlutann og komu Kalli og Sara til okkar og síðan hittum við ferðahópinn á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi og ferðuðumst með þeim í Fnjóskadalinn og í Fjörður.
Þessi mynd er tekin niðri í fjöru í Fjörðum.
Það tilheyrir í ferðum okkar að sitja við varðeld á kvöldin og syngja og skemmta okkur.
Ég skellti mér svo í Reykjavíkurmaraþonið og hljóp 10 km. og safnaði áheitum fyrir Parkinsonsamtökin.  Safnaði 56.500 kr. og þakka allan stuðninginn.  Myndin hér að ofan er af nokkrum samstarfsmönnum og vinum.  Æðislegur hópur og hvetjandi með eindæmum.
 . 
Og nú er haustið komið með allri sinni fegurð og skólinn byrjaður aftur og allt að komast í rútínu. Kalli farinn að lesa lögfræði og Sara að ljúka Flensborg og Ásta Sigrún byrjuð í námi um Alþjóða samskipti.  Gulli og Sandra komin í gang með sín verkefni, Gulli í sínu doktorsnámi og kennslu og Sandra vinnu í leikskólanum en fer von bráðar að takast á við ný verkefni í nýjum skóla og Hildur Saga farin í leikskólann aftur.  Við Maggi komin á okkar staði í skólunum og nokkuð sátt.
Og nú er bakkinn fallegi kominn í haustskrúða.  Þetta átti víst ekki að verða langt blogg í þetta skiptið en svona er þetta bara þegar maður byrjar á annað borð.

11 ummæli:

  1. Það er gott að vera komin heim til ykkar og gott að koma heim í Lyngberg:) Allt sem þú gerir er svo fallegt mamma mín:*

    SvaraEyða
  2. Gaman að lesa bloggið þitt, Sigga, ég var farin að bíða! Svaka flott saumaherbergi, ég hlakka til að sjá það með eigin augum....en hvar er saumavélin?..

    SvaraEyða
  3. Flott herbergið hjá þér Sigga, hvað er það margir fermetrar?

    SvaraEyða
  4. Herbergið er um það bil 8 fermetrar Anna Björg.

    SvaraEyða
  5. Mikid er gaman ad sjá bloggid lifna vid aftur. Hlakka til ad lesa komandi pistla :)

    SvaraEyða
  6. hæhæ gaman að skoða bloggin hjá þér og ásm og magga. Þetta er rosalega flott herbergi!
    Sæunn

    SvaraEyða
  7. Eins gott að maður var ekki alveg búin að gefast upp á að kíkja inn á síðuna.
    Herbergið er alveg geggjað.

    SvaraEyða
  8. vei vei gaman gaman :)
    Skemmtileg yfirferð sumarsins!

    kv. Helga Dröfn

    SvaraEyða
  9. Guðríður Kristinsdóttir19. janúar 2011 kl. 22:25

    Sæl Sigríður Ólöf

    Rakst á bloggið þitt gegnum annað blogg - fallegt það sem þú ert að gera. Herbergið þitt er mjög fallega gert og flott. Ekki amalegt að hafa svona aðstöðu. Er að velta fyrir mér hvort armarnir á stólnum séu of háir þegar unnið er í höndum t.d. prjónað. Var að skoða svona stól og var ekki viss.
    Kv.
    Guðríður

    SvaraEyða
  10. Sæl Guðríður og takk fyrir innlitið.
    Ég er mjög ánægð með stólinn. Hann hentar mér mjög vel miðað við mína hæð. Einnig er hann það breiður að ég þarf ekki að vera með handleggina upp á örmunum. Mæli með honum;-)

    SvaraEyða
  11. Guðríður Kristinsdóttir26. janúar 2011 kl. 20:23

    Sæl Sigríður Ólöf,
    Bestu þakkir fyrir upplýsingarnar. Mér finnst órtúlega gaman og hvetjandi að skoða blog eins og þitt. Maður fyllist löngunar til að fara að framkvæma en ekki bara hugsa um allt sem gaman væri að gera. Samt líður mér eins og ég sé að hnýsast þegar er að lesa svona blogsíður og jafnvel fá hugmyndir.
    Kveðja,
    Guðríður

    SvaraEyða