Sýnir færslur með efnisorðinu Páskar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Páskar. Sýna allar færslur

29.4.10

Blogghlé/leti!

Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast, það er ekki svo með sagt að hér hafi ekki verið nóg að gera og ýmsu komið í verk.  Síðustu vikuna fyrir páska fór ég ásamt tveimur samstarfsmönnum mínum með 62 nemendur úr 9. bekk að Laugum í Sælingsdal.  Þar voru einnig 35 nemendur úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ ásamt 2 tveimur starfsmönnum þaðan.  Þarna vorum við í heila viku með þessa frábæru krakka sem nutu dvalarinnar í leik og starfi.  Ég tók náttúrulega prjónana með mér og prjónaði þennan snúna sjalkraga handa henni Ástu Maríu, mágkonu minni sem varð fimmtug þann 4.4.
Þegar heim kom fór ég beint í páskafrí sem var yndislegt, rólegheit og engin plön í gangi á heimilinu nema að njóta þess að vera saman, fara í göngutúra, borða góðan mat og hafa það sem allra best.
Við gerðum okkur þó ferð inn í Fljótshlíð (eins og sjálfsagt meira en helmingur landsmanna) til þess að sjá gosið á Fimmvörðuhálsi.  Við fórum með Þorkeli, Ástu, Jóni, Ástu Maríu, Helgu Dröfn, Lalla, Kristjáni, Árna Hlyni, Tómasi Snæ, Herði og Ástu Kristínu, takk fyrir yndislega ferð og samveru.  Þessi ferð var afmælisferð fyrir afa Kalla og fengum við að njóta með honum.  Ótrúlegt á að horfa þó úr fjarlægð væri (frá Þórólfsfelli).  Á meðan við vorum í Fljótshlíðinni var Kalli með vinum okkar Ellu, Garðari, Ingu og Einari ásamt fleirum uppi við sjálfar gosstöðvarnar.
Svo komu páskarnir með öllu tilheyrandi, páskaeggjum, góðum mat og frábærum brunch hjá afmælisbarni páskadags henni Ástu Maríu.
Ég er búin að hafa svo gaman af speglinum (sem ég nota sem bakka undir kertaglösin mín).  Nú var hann kominn í páskabúning en hægt er að sjá hann í haust- og jólabúningi í þessu bloggi http://siggalo.blogspot.com/2009/10/hausti-me-kertaljosum-inni-og-uti.html
Eftir að ég kláraði teppin, Flóafárið og teppið handa Þorra og Emmu, var ég bara lengi í gang aftur.  Nú er ég þó öll að koma til og er að prjóna þennan fallega sumarkjól handa Hildi Sögu minni og einnig er ég búin að kaupa í litla gollu við hann. 
Nú lofa ég sjálfri mér því að vera duglegri við bloggið, mér finnst þetta skemmtilegt og svo geta börnin mín stór og smá og aðrir ættingjar í útlöndum fylgst með og ég held bara að þau geri það:-) Bless í bili.