6.12.09

Jóla, jóla, framhald

Jólaundirbúningur heldur áfram hér í Lyngberginu og er jólakransinn kominn á sinn stað á útihurðinni. Ég var nú í fyrra fallinu með hann í ár þar sem ég var með kvennaboð hér síðasta fimmtudaginn í nóvember. Þá var auðvitað góð afsökun til þess að búa hann til og setja upp.

Það er einnig orðið jólalegt hér innanhúss, aðventuborðið skartar sínu fegursta og ég er farin að tína fram jóladótið svona smátt og smátt til að skreyta með.

Matargerð, bakstur og fleira er í fullum gangi og búið er t.d. að gera kókóskúlurnar sem ekki mega missa sín á aðventunni. Þær eru bara hrein hollusta!! þ.e. ég hakka saman döðlur, gráfíkjur og marsipan, bý til litlar kúlur sem ég velti upp úr bráðnu dökku súkkulaði og svo upp úr kókósmjöli.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá afrakstur síðustu helga, þ.e. kókóskúlur, lifrarpaté, smákökur, laufabrauð sem við skerum alltaf út á Melhaga hjá tengdó og í Fagrabergi með mömmu og pabba. Einnig má sjá chillisultu og biscotti en það fer í körfurnar góðu.

Ég hef einnig setið við saumavélina upp á síðkastið og saumaði þessa poka sem ég ætla svo að fylla með mandarínum, hnetum og sprittkertum handa vel völdum ættingjum í jólagjafir.

Eins og ég sagði í síðasta bloggi, þá er þetta skemmtilegasti tími ársins að mér finnst og ég nýt þess að baka, sauma, prjóna og dunda mér við þetta allt saman. Ásta Sigrún kemur heim í jólafrí á miðvikudaginn og verður nú heldur betur gott að fá hana heim. Við fengum þær fréttir um daginn að litla fjölskyldan í Eskilstuna ætlar að koma og dvelja hjá okkur yfir jólin og þá verður fjör í kotinu. Ég get varla beðið. Kalli okkar útskrifast svo stúdent þann 20. svo það er nóg að gera. Læt þetta nægja í bili.