28.2.09

Það er ekki leiðinlegt...




Nú er ég orðin amma, á litla sonardóttur sem heitir Hildur Saga Gunnlaugsdóttir og fæddist 27. júní 2008. Mér þykir ótrúlega skemmtilegt að prjóna á hana og ýmislegt handa henni. Þennan jólasokk prjónaði ég handa henni í haust og saumaði út í hann myndirnar og nafnið hennar. Ég saumaði einnig tölur og fleira á sokkinn



Í fyrra vetur fór ég á þæfingarnámskeið og gerði þessa skó handa Hildi Sögu, var þá rétt búin að fá fregnir af því að hennar væri von.



Maður verður nú að vera þjóðleg þó maður búi í Svíþjóð með mömmu og pabba. Svo er þetta svo hlýtt í vagninn. Ég prjónaði peysuna úr einföldum plötulopa eftir mynstri sem Inga vinkona mín átti frá því elsti sonur hennar var á fyrsta árinu. Þetta munstur var mjög vinsælt á þeim árum þ.e. um 1981. Teppið sem er við hliðina á Hildi Sögu prjónaði ég einnig áður en hún fæddist.




Þetta sett prjónaði ég á Hildi Sögu áður en hún fæddist. Ég renndi blint í sjóinn með litinn því ég vissi ekki hvort kynið var á leiðinni. Mér finnst þessi litur ganga á bæði stelpur og stráka og svo skreytti ég hana með tölunum.



Þessa peysu prjónaði ég á hana til að koma í heim af fæðingardeildinni. Hún var nú dálítið stór á frökenina en hún var nú ekki lengi að stækka upp í hana og notaði hana fram að jólum.

Herramennirnir í uppáhaldi


Þegar ég var í Kennó þá saumaði ég þetta rúmteppi handa Gulla. Herramennirnir voru (og reyndar eru enn) í svo miklu uppáhaldi hjá honum. Nú hangir þetta sama teppi fyrir ofan rúmið hennar Hildar Sögu sonardóttur minnar. Mér þykir ótrúlega vænt um það.

Peysan hennar Söndru


Þessa peysu prjónaði ég fyrir nokkrum árum síðan. Söndru langaði í röndótta peysu í mörgum litum. Ég notaði ýmsa afganga í peysuna og áttu rendurnar alls ekki að vera reglulegar. En það er ótrulegt hvað ég á erfitt með að hafa hlutina óreglulega.

Einu sinni var...


Þegar frumburðurinn var tveggja ára, fór ég á námskeið í posturlínsmálningu. Þá málaði ég þetta matarsett fyrir Gulla minn.

23.2.09

Epladúkurinn


Þegar Ásta Sigrún lagði í hann til Ástralíu, gerði ég mér lítið fyrir og gerði herbergið hennar að lítilli saumastofu. Lagði undir mig tvær hillur í bókaskápnum hennar undir efnin mín og þau áhöld sem ég þarf að nota við saumaskap og skrifborðið hennar undir saumavélina góðu (sem er bara dásamleg. Einnig setti ég strauborðið upp þannig að ég hef allt við hendina sem á þarf að halda. Ásta Sigrún hefur nú hvatt mig til þess að gera þetta undanfarin 2 ár (eða frá því hún fór til Edinborgar fyrir tveimur árum) en nú er svo langt þangað til hún kemur heim að mér finnst taka því að hreiðra svolítið um mig í hornherberginu.

Jæja ég byrjaði á því að finna mynstrið af epladúknum sem ég keypti fyrir nokkrum árum. Ég var búin að sníða að mestu efnið í hann en síðan ekki söguna meir. Ég mundi að ég hafði lent í vandræðum með efnið, ekki sniðið rétt í hann. Ég var nú reyndar ekki lengi að sjá hvaða vitleysu ég hafði gert og byrjaði að raða saman og sníða það sem eftir var. Svo byrjaði saumaskapurinn og ótrúlega er þetta skemmtilegt. Nú er ég búin með dekkið (yfirborðið) og þarf nú bara að kaupa dúkavatt og bak og ljúka herlegheitunum.

22.2.09

Hér byrjar ballið :-)

Ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að blogga. Ég veit að börnin mín veltast um af hlátri þegar og ef þau sjá þetta.

En ég hef nú í ótrúlega langan tíma átt mér áhugamál sem eru ýmis konar hannyrðir. Í gegnum árin hef ég haft mismikinn tíma til að sinna þessu áhugamáli en nú virðist runnið upp tímabil í ævi minni þar sem ég virðist hafa aukinn tíma og hef ekki á tilfinningunni að ég sé að stela tíma frá öðrum verkefnum sem ég þarf að setja í forgang.

Ég sá hjá samstarfskonu minni og skólasystur frá því í Kvennó bloggsíðu þar sem hún setur inn þá handavinnu sem hún er að vinna ásamt ýmsu sem hún hefur gert á liðnum árum. Um daginn keypti ég saumavél af henni (og hef setið við bútasaum síðan) og þegar hún kvaddi mig á tröppum heimilis hennar sagði hún: "og svo er bara að byrja að blogga Sigga". Ég hló nú bara og lét eins og þetta væri það síðasta sem ég myndi gera en viti menn....

Ég læt þessu nú lokið að sinni og þarf að huga vel að því sem hér verður birt og hvað ekki. Ég á ótrulegt safn handavinnu sem ég vildi gjarnan eiga myndir af á svona svæði, það er í rauninni synd að ég skuli ekki hafa tekið myndir af því sem ég hef unnið um dagana.