31.3.09

Lopavesti úr einföldum plötulopa

Þetta lopavesti var ég að klára á Hildi Sögu. Það er prjónað úr einföldum plötulopa. Ég er þó dálítið hrædd um að það sé of stórt á hana og er að hugsa um að prjóna annað og minnka uppskriftina eða prjónana. Uppskriftin er í bókinni Lopi nr. 28. Ég notaði uppskrift af peysu og sleppti bara ermunum. Sé til hvað ég geri, ætti samt að geta klárað það áður en Elsa fer út.

29.3.09

Jarðarberjapeysa handa Hildi Sögu

Jæja þá er þessi tilbúin fyrir litluna mína í Eskilstuna. Ég keypti uppskrift og garn í sumar í þessa peysu og húfu. Ég notaði Dala garn og uppskriftin er úr blaði frá Dala. Það var mjög skemmtilegt að prjóna þessa peysu og ég tala nú ekki um húfuna. Ég keypti síðan jarðarberjatölurnar á hana í Kaupmannahöfn í sumar. En það fellur ferð til Eskilstuna með Elsu Haralds, systur Söndru svo það ýtti á mig að klára. Vonandi passar hún! (Ef smellt er með músinni ofan á myndina þá sjást tölurnar betur og einnig munstrið á húfunni)

23.3.09

Saumahelgi

Jæja þá er komið að því að segja frá saumhelginni minni. Ég hafði fyrir nokkuð löngu síðan skráð mig á bútasaumsnámskeið hjá Guðrúnu Erlu (sem býr í Ameríku og rekur þar nú fyrirtæki þar sem bæði eru hönnuð mynstur og efni til bútasaums). Námskeiðin voru tvö, annað á föstudagskvöldi frá 5-9 og hitt daginn eftir frá 9 um morguninn fram til kl. að ganga fimm. Það voru margar umsóknir um námskeiðin og komust færri að en vildu.
Við Maggi ákváðum að fá bústað á leigu og njóta helgarinnar. Við lögðum af stað föstudaginn 13. mars í hinu versta veðri. Maggi keyrði mig í Gaulverjabæinn þar sem námskeiðið var endanlega haldið (það voru 73 konur það kvöld). Síðan keyrði hann í bústaðinn sem er í Ásgarðslandi við Sogið.
Þetta kvöld var mjög skemmtilegt. Þar lærði ég að sauma beint á bak og vatt. Saumaði þennan líka skemmtilega löber sem ég set mynd af inn á bloggið síðar í vor því Guðrún Erla er að gefa út bók með mynstrinu og hún kemur ekki út fyrr en í maí svo við bíðum með það. Maggi sótti mig svo á námskeiðið og komumst við klakklaust í bústaðinn en veðrið var vægast sagt hræðilegt. Hann hafði þá komið okkur vel fyrir og notið þess að eiga stund fyrir sjálfan sig með gítarnum, góðum bókum og ég tala nú ekki um heita pottinn.
Á laugardagsmorgun var veðrið þannig að M vildi endilega keyra mig á námskeiðið (ég var nú bara fegin því). Það eina sem ég vissi var að verkefnið var lúrteppi. Við fengum litla miða þar sem unnið var í þrepum. Ég fékk þrep 1 og síðan koll af kolli eftir því sem þrepin unnust en þau voru 10. Ég vann stanslaust til kl. 12, en þá fengum við kaldan hádegisver (mjög góðan) og tók ég mér bara korters pásu. Þrátt fyrir það náði ég eingöngu að klára 6 þrep fram til kl. 15.30 en þá voru nokkrar konur komnar að því að setja herlegheitin saman (ótrúlega duglegar þessar konur, brunuðu áfram með bensínfætinum eins og ég veit ekki hvað, ekki allveg mín aðferð en...). Það var spenna í loftinu þegar Guðrún Erla rúllaði teppinu út og gripu konur andann á lofti. Það er ótrúlega fallegt. Við þurftum að vera búnar að pakka saman kl. 16.30 og fékk ég ljósrit af þeim þrepum sem ég átti eftir til þess að klára heima.
Maggi sótti mig og áttum við frábært kvöld og eyddum sunnudegi í bústaðnum fram að kvöldmat og héldum þá heim á leið, sátt og úthvíld andlega.
Ég pantaði efnin í verkefnin hjá Bót á Selfossi. Það eru nú ekki mínir litir sem fyrir valinu urðu en það er bara spennandi. Ég er nú búin með öll þrepin 10 og er að setja teppið saman. Ég er að verða búin með helminginn og það er bara nokkuð snoturt. Það hefur reyndar truflað mig nokkuð litaval þeirra í Bót en við sjáum til.
Myndir koma svo í vor þegar ég má setja þær á netið.

21.3.09

Mér tókst það!!!

Svona leit þetta út þegar ég byrjaði. Búin að sauma nokkrar blokkir þegar þessi mynd var tekin
Fyrst eru saumaðar blokkir og þær síðan saumaðar saman.


Á þessari mynd sést bakhluti dúksins. Mér gekk illa að fá efni sem ég var sátt við, fór meira að segja í Bót á Selfossi til þess. Ég keypti efnið í dúkinn þar fyrir um tveimur árum síðan og ætlaði að freista þess að fá eitthvað af efnunum sem ég er með í dekkinu en gekk ekki. Það endaði með því að ég fór í Virku og fékk þetta efni sem er í ferningnum sem sést á myndinni.


Og svona lítur hann út á borðstofuborðinu. Mér tókst að klára hann áður en ég fór á bútasaums námskeiðið á Selfossi um síðustu helgi. Ég á eftir að segja frá því. Það var meiriháttar skemmtilegt og ég blogga um það síðar.




9.3.09

Ósköp gengur þetta hægt hjá mér

Ég er nú búin að vera að stinga epladúkinn mörg kvöld í röð og mér finnst ég ekkert komast áfram. Í dag sat ég í marga klukkutíma og er ekki hálfnuð. Á eina og hálfa hlið eftir og alla miðjuna. Þetta reynir dálítið á þolinmæði mína (sem er kannski ekki mikið til af svona venjulega) en ég sé fram á það að vera minnst 2 kvöld í viðbót. Markmiðið er að klára þetta og koma mynd á netið fyrir föstudaginn því þá ætla ég á námskeið. Fékk inni á námskeiði hjá Guðrúnu Erlu á Selfossi bæði föstudag og laugardag. Við Maggi erum búin að fá bústað í Grímsnesinu um helgina. Hlakka mikið til!
En held áfram að stinga :-(