23.6.09

Það styttist í að litla fjölskyldan frá Eskilstuna komi:-)

Það er lítið að gerast þessa dagana. Ég er rétt að komast í gang eftir að hafa notið þess að gera sem minnst!
Á föstudaginn koma þau svo til landsins
Gulli, Sandra og Hildur Saga og erum við mjög spennt. Litla daman verður síðan eins árs á laugardag og verður afmæli fyrir hana á sunnudaginn og fannst mér best að fara að bretta upp ermar og njóta þess að byrja að baka fyrir afmælið.
Heyrði í Ástu Sigrúnu í morgun og er hún spennt að leggja í hann í ferðalagið sem hún fer í 1. júlí og ætlar að vera á ferðinni í 9 daga með vinkonum sínum. Ekki leiðinlegt að ferðast um austurströnd Ástralíu (reyndar bara lítinn part af austurströnd þessa stóra lands) og upplifa eitthvað sem hefur verið draumur hennar frá því að hún var lítil stelpa. Hún ætlar t.d. að fara að snorka við kóralrifið fræga. Svo kemur hún heim (húrra, húrra) 14. júlí og nær að hitta litlu fjölskylduna frá Eskilstuna. Það verður frábært að fá eðlilegt hljóð í húsið með alla fjölskyldumeðlimi í því á sama tíma.
Þessi síða átti í upphafi að vera um handavinnu og fl. og hefur nú lítið farið fyrir slíku upp á síðkastið. Ég er þó búin að prjóna 2 húfusett eins og sést hér fyrir ofan því nú fer að líða að því að barnabarn Ellu og Garðars fæðist.

Og svo er ég búin að prjóna húfu á Hildi Sögu fyrir haustið en þá byrjar hún í leikskóla litla sílið. En núna hlakka ég til að fá að finna hana í fanginu og fá að njóta nokkurra daga með henni og foreldrunum.

16.6.09

Sumarfrí, sumarfrí, sumarfrí, frí, frí...


Ja hérna hér. Ótrúlega finnst manni tíminn líða
þegar maður lítur til baka yfir veturinn. Mér finnst eins og það hafi bara verið mánudagar og föstudagar í vinnuvikum vetrarins. En nú er sumarið komið og tími til að njóta. Það tekur mig alltaf smá tíma að ná mér niður eftir veturinn og fara að njóta þess að vera í fríi.
Mér finnst ég þurfa að gera svo margt sem ég hef ýtt á undan mér eins og alls konar þrif, helst að mála (mjög vinsælt eða þannig hér á þessu heimili!) taka til í skápum og viðra og og og...
Nú er þriðji í fríi og ég ekki farin að gera nokkurn skapaðan hlut nema að reyna að komast niður úr hrúgunni í þvottahúsinu hm..

Reyndar erum við Inga vinkona búnar að setja okkur
það markmið að ganga hressilega á morgnana í sumar (það er sko tekið á því) og byrjuðum heldur betur vel, fórum bæði í gær og í dag kl. 9 (óguðlegur tími svona í sumarfríi) en við erum góðar þegar við tökum okkur til.

Í dag á Ásta mín afmæli og reiddi fram kökur og krásir og ligg ég nú á meltunni eftir herlegheitin.

17. júní á morgun og ekki verður mér mikið úr verki þá. Við kíkjum í bæinn og auðvitað til mömmu og pabba í pylsur og hamborgara eins og venjulega standandi kræsingar á þeim bæ. Ég vona bara að veðrið verði ekki eins og á myndinni hér fyrir ofan, sem ég tók á laugardaginn úti á stéttinni við húsið okkar. Er reyndar að horfa á veðurfréttir sjónvarpsins og viti menn þeir spá rigningu:-(
Það er eins gott að geta þess að fánamyndin er tekin af vef Skýrr.

8.6.09

Það er nóg að gera!

Það er nú orðið langt síðan ég bloggaði síðast. Síðustu vikur hafa verið frekar strembnar, prófabunkarnir stórir og naut ég þess nokkra daga að veðrið var þannig að ég gat farið yfir þau úti í sólinni. Það vill til að mér finnst gaman að fara yfir próf og gaf mér góðan tíma til þess. Síðasta vika var svo brotin upp með skemmtilegum vordögum þar sem þemað var umhverfið og mannúðarstörf.Nú er ég búin að setja niður nokkur sumarblóm. Mér finnst þessi árstími yndislegur. Við Inga vinkona skelltum okkur í Hveragerði og keyptum nokkur sumarblóm til að setja niður einnig keypti ég nokkur fjölær og ætla að vona að þau dafni vel og nái von bráðar að hylja beðin hjá okkur, ekki veitir af.

Við Maggi fórum í heimsókn til Eika og Þrúðu í sumarbústaðinn þeirra í Þrastarskógi og áttum ánægjulegt kvöld með þeim. Eiki klikkar ekki við grillið!
Um helgina vorum við svo boðin í skírn hjá Magnúsi Inga og Siggu og var sú stutta skírð Ingibjörg í höfðuðið á ömmu sinni. Amman (og náttúrulega allir viðstaddir) ljómaði af gleði. Yndislegt veður og frábær veisla.
Það er útskrift í Setbergsskóla á morgun. Nemendur 10.bekkja kveðja okkur og verð ég að segja að ég mun sakna þeirra. Þessir nemendur sem ég hef kennt undanfarin 3 ár eru frábærir og finnst mér það hafa verið forréttindi að hafa fengið að kenna þeim.
Það gengur lítið með hannyrðir þessa dagana þó svo að það sé alltaf eitthvað á prjónunum það tekur því varla að segja frá því. Kannski næst.