15.9.09

Þá er hann Kalli minn sáttur.

Jæja þá er ég loksins búin með peysuna hans Kalla míns. Hann er búinn að bíða allt of lengi eftir henni. Ég prjónaði hana um verslunarmannahelgina en átti eftir að ganga frá henni, klippa og setja rennilásinn í. Ég er búin að kvíða því að gera þetta því ég hef aðeins einu sinni áður sett rennilás í peysu og var ekkert sérstaklega ánægð með útkomuna. En nú er ég búin og gekk bara nokkuð vel.
Og Kalli minn er sáttur!

13.9.09

Haustið er minn tími!

Mér finnst sumarið yndislegt með björtum nóttum og (mis)hlýjum dögum. Mér finnst frábært að ferðast með karlinum mínum og góðum vinum og ég tala nú ekki um þegar börnin koma með okkur. Ég nýt þess að sitja úti á góðum sumardögum og sötra kaffið mitt og jafnvel að taka handavinnuna mína út með mér. En haustið er minn tími! Litirnir í garðinum okkar eru svo ótrúlega fallegir, blóm, tré og runnar undirbúa dvala og tapa laufum og blómknúppum en fegurðin er ólýsanleg. Og nú gefast tækifæri til þess að kveikja á kertum, ég elska kertaljós.
Eins og sjá má á myndinni sem ég er búin að setja í síðuhausinn þá eru litirnir í birkikvistinum fallegir og þessi mynd hér að ofan er tekin nokkrum dögum síðar og ekki eru þeir litir síðri.
Nú hafa haustplöntur tekið við af sumarplöntum og skarta sínu fegursta. Einnig finnst mér skemmtilegt að færa litina inn í hús og búa til skreytingar til að hafa inni við.Í dag hittumst við stór(tengda)fjölskyldan, eins og við höfum gert undanfarið, þ.e. að hittast einu sinni í mánuði í hádegisverð. Við Ásta Sigrún föndruðum ýmislegt úr haustefniviði úr garðinum og sjáið þið bara afraksturinn.

Svo nú eru haustskreytingar út um allt hús hjá okkur í Lyngberginu.

Fallegt ekki satt?

Og svo er náttúrulega búið að búa til rabarbarasultu og rifsið bíður þess að húsmóðirin gefi sér tíma til að gera hlaup úr því.

7.9.09

Það er kominn tími á blogg er það ekki?

Ég endaði síðasta (stutta) blogg á því að segja frá því að ég hefði verið í ferðalagi með hópi fólks sem við höfum ferðast með um verslunarmannahelgina undanfarin ár. Þessi hóður samanstendur af æskuvinkonum mínum þeim Ingu og Ellu og fjölskyldum þeirra. Það bætist í hópinn á hverju ári og vorum við sex fjölskyldur í ferðinni að þessu sinni og vorum við þegar flest var 21. Við Maggi lögðum af stað úr Lyngberginu seint á fimmtudeginum og hittum Ingu, Einar, Sigrúnu Ellu dóttur þeirra og Þórhildi (dóttur Ellu og Garðars), Magnús Inga, Siggu og Ingibjörgu litlu dóttur þeirra og Guðmund og Elísabetu (foreldra Siggu), Guðna og Helgu (þeirra börn) og ekki má gleyma Massimo (hundinum þeirra), á Suðurlandsveginum við Rauðavatn. Allir í besta ferðastuði og héldum áleiðis í Hrífunes. Við komum þangað seint um kvöld, eftir hefðbundin stopp á leiðinni. Þar komum við okkur vel fyrir í tjaldvögnum og fellihýsi og áttum notalega stund þar til fólk fór að koma sér í svefn. Á föstudeginum lögðum við í hann austur að Breiðamerkurlóni. Veðrið var nokkuð rysjótt, rigndi dálítið á okkur, en þegar austur kom var hið besta veður og skartaði

lónið sínu fegursta, ég hef sjaldan séð það svona fallegt og stútfullt af ísjökum. Á leið heim stoppuðum við á Kirkjubæjarklaustri og fórum í sund og síðan fengum við okkur hressingu að Kvískerjum.
Þegar heim kom var Hanna (mágkona Garðars) komin með sonum sínum Jóni Arnari og Marteini og voru þau að reisa tjaldvagninn þegar við mættum í "Pottinn" en þar höfum við áður dvalið um verslunarmannahelgi. Um kvöldið var leikið og sungið eins og alltaf í þessum ferðum og spilað á gítara fram á rauða nótt. Um miðnættið bættust svo Kalli, Ásta Sigrún (okkar börn) og Diddi (sonur Ingu og Einars) í hópinn. Mátti varla sjá hverjir skemmtu sér betur, unga fólkið eða gamlingjarnir! Á laugardeginum bættust svo Ella og Garðar í hópinn og var þá lagt af stað upp á hálendið að skoða Lakagíga. Við Maggi höfðum aldrei komið á þetta svæði og var mikil tilhlökkun. Við vorum ekkert sérstaklega heppin með veðrið en það var ótrúlegt hvað birti upp þegar við komum upp á hálendið.
Eins og sést hér á myndinni til hliðar var þetta fríður hópur sem var í þessari ferð og það skemmtilegasta við þessa ferð var hversu mörg ungmenni voru með. Við vorum með 9 ungmenni á aldrinum 14-23 ára, er það ekki bara dásamlegt? Og svo auðvitað litla Ingibjörg 4 mánaða.
Þegar við komum heim á mánudeginum þá skellti ég mér í það að þvo og pakka því ég var á leið til Svíþjóðar til Gulla, Söndru og Hildar Sögu á miðvikudagsmorgninum. Ég reyndar stoppaði í Stokkhólmi á leiðinni til þeirra og náði að hitta Rannveigu samkennara minn og Eyjólf manninn hennar sem þar hafa dvalið frá því í vor. Þeirra dvöl þar kemur reyndar ekki til af góðu því Eyjólfur hefur verið þar vegna mergskipta. Við áttum góðan tíma þar sem við fengum okkur brunch og spjölluðum þessi líka ósköp. Ég rétt náði lestinni til Eskilstuna og var orðin spennt að hitta litlu fjölskylduna. Ég átti frábæra daga með þeim, þar sem dekrað var við mig daginn út og inn. Við fórum í skemmtilega ferð til Trussa (vona að þetta sé rétt skrifað hjá mér), sem er skemmtilegur bær með handverksverslunum í tugatali. Fallegt handverk úr leir og ég tala nú ekki um hör. Sæmundur pabbi Söndru er í Eskilstuna núna og er með bát þar. Hann fór með okkur í bátsferð og er myndin af okkur "ömgunum" tekin þar um borð. Við fórum á ströndina og áttum góðar stundir heima hjá þeim. Ég flaug síðan með þeim til Dublin mánudaginn 5. ágúst þar sem við hittum Þorra bróður og Emmu og sama dag komu mamma, pabbi og Ásta Sigrún frá Íslandi. Tilefnið var brúðkaup þeirra Þorra og Emmu og bættust síðan fleiri fjölskyldumeðlimir í hópinn eftir því sem dagarnir liðu. Berglind, Sigrún og Sæunn komu á þriðjudegi, Maggi, Kalli komu á miðvikudeginum og Ásgeir og Hildigunnur
komu frá New York þann sama dag. Þá vorum við öll saman komin í fyrsta skipti hjá Þorra á heimili hans og Emmu í Dublin og reyndar í fyrsta skipti öll saman í útlöndum. Hópurinn er fallegur hér á myndinni ekki satt? En myndin er tekin á miðvikudagskvöldinu þar sem við vorum í þvílíkri veislu hjá honum en Emma var þá farin til foreldra sinna og ætlaði að gista hjá þeim nóttina fyrir brúðkaupið. Við stelpurnar vorum reyndar búnar að gæsa Emmu á þriðjudeginum og áttum frábæra kvöldstund með vinum hennar og samstarfskonum.
Þorri var að hitta Hildi Sögu í fyrsta skipti og fór vel á með þeim eins og sést hér á myndinni til hliðar.
Það var svo sem ekki að sjá að þau hefðu ekki hist fyrr, enda samskipti auðveld í dag með Skype og annarri tækni.
Á fimmtudeginum vorum við sem gistum á hóteli í Dublin, sótt og fórum öll saman í lítilli rútu til Carton House, en þar fór hjónavígslan fram. Eins og sést á myndinni er þetta ótrúlega

fallegt hús og umhverfið einnig fallegt. Þarna er golfvöllur af stærstu gerð, veitingastaður, hótel og fleira og fleira. Skötuhjúin voru gefin saman í fallegum sal í gamla húsinu og tóku margir af fjölskyldunni þátt í athöfninni með einum eða öðrum hætti, upplestri, tónlist og fleiru. Athöfnin var yndislega falleg og hátíðleg. Eftir athöfnina voru léttar veitingar og svo náttúrulega myndatökur, ég segi tökur þar sem þurfti náttúrulega að mynda hjónin með ýmsum hópum, vinum, ættingjum og öllum saman og svo framvegis. Síðan var matur kl. 6 og stóð veislan fram á nótt með þvílíkum
veitingum, ræðuhöldum, söng og dansi.
Við Maggi stálum síðan Hildi Sögu sem svaf á milli okkar um nóttina í fyrsta skipti vonandi af mörgum. Unga fólkið hélt gleðinni áfram fram á rauða nótt. Og eins og sjá má á myndinni hér að ofan hvarf ekki brosið að nýju hjónunum allt kvöldið. Flestir gestanna gistu síðan á hótelinu um nóttina og hittumst við svo í morgunmat og síðan buðu Þorri og Emma okkur öllum í hádegisverð í golfklúbbnum. Ásgeir þurfti reyndar að taka próf frá því snemma um morguninn og fram á miðjan dag (á netinu). Þetta var endalaus veisla og sögðu margir að þetta væri bara eins og hjá víkingunum forðum. Á laugardeginum buðu síðan foreldrar Emmu og bróðir hennar hann Barry okkur öllum ásamt nágrönnum þeirra og frændfólki Emmu í garðveislu þar sem huggulegheitin og veisluhöldin héldu áfram fram á kvöld. Ásgeir var þá floginn til New York aftur og Hildigunnur til Íslands.
Já þetta verður ógleymanlegt. Við flugum síðan í hinar og þessar áttir á sunnudeginum, við úr Lyngberginu og Berglind og stelpurnar til Íslands, Gulli, Sandra og Hildur Saga til Eskilstuna, Þorri og Emma til Spánar í brúðkaupsferð í viku, en mamma og pabbi urðu eftir í Dublin og skiluðu sér heil heim viku síðar. Ævintýri! já og það af bestu gerð.