5.9.10

Nú er langt síðan síðast.

Í rauninni ætla ég ekki að skrifa langt blogg í þetta skiptið heldur láta myndirnar tala sínu máli.  Mér fannst í raun sumarið í ár vera frekar viðburðalítið en svo þegar ég sest niður og set inn allar myndirnar þá sé ég að það hefur bara heilmargt gerst hjá okkur og við verið bara nokkuð dugleg:-) Vorboðinn var heimkoma Ástu Sigrúnar sem er alkomin (í bili alla vega).  Hún útskrifaðist frá Edinborg með glæsibrag í júlí og er nú að byrja í meistaranámi við HÍ.  Hún sem sagt kom og fór,- það er að segja hún er nú orðin Kópavogsbúi og fer vel um hana þar. Við héldum upp á útskriftina hennar með fjölskylduboði og svo heljar partýi um kvöldið með vinum hennar og frændsystkinum.
Hér fyrir ofan er BA hon. Ásta Sigrún Magnúsdóttir heima í Lyngbergi rétt orðin Kópavogsbúi.  Þegar hún var nú blessunin búin að tæma herbergið sitt hér heima þá gerði ég með hjálp Magga míns og fl. mér lítið fyrir og hreiðraði um mig í því.  Ég hef aldrei haft neina aðstöðu í húsinu fyrir áhugamálin mín en nú er bara heilt herbergi fyrir mig.  Maggi og Inga máluðu herbergið (á meðan ég undirbjó útskrift;-)
Síðan kom hann pabbi minn og við parketlögðum.  Ásta Sigrún skildi þennan fallega skáp eftir og málaði ég hann með sama lit og veggina í herberginu. 
Kemur mjög vel út að mínu mati.
 Keypti mér þennan líka fína stól, lampann og borðið í IKEA (hvar væri maður ef ekki væri IKEA á Íslandi?
Þarna setti Maggi minn upp borð fyrir mig og hillur og fleira.  Á þessu borði ætla ég að vera með skurðarmottuna fyrir bútasauminn og efnin mín og fleira tengt bútasaumi og skrappi í skúffunum og hillum.  Skúffueiningarnar eru á hjólum og borðplata ofan á þeim svo ég get dregið þær til mín þegar ég er að vinna við hitt borðið. Eins og sjá má þá er þetta borð frekar hátt og er til þess að standa við það og vinna.  Ásta Sigrún gaf mér þennan segul sem er á veggnum hægra megin við borðið og eru box á honum fyrir títuprjóna og tölur og fl
 
Þetta borð er síðan í hæð til að sitja við og vinna.  Maggi hengdi slár fyrir ofan bæði borðin og gaf mér þessar skemmtilegu leirkrúsir sem eru flottar geymslur fyrir alls konar verkfæri og fl.
Ég hef nú ekki verið dugleg við handavinnu í sumar, ég náði þó að klára kjólinn og peysuna á Hildi Sögu.  Myndin hér að ofan er ekki í nógu góðum litum (sést betur í síðasta bloggi) en þetta kom reglulega skemmtilega út.  Kjóllinn er heldur stór á hana en hún vex svo hratt að hann verður passlegur áður en langt um líður.
Þetta teppi prjónaði ég handa henni Evu litlu frænku minni sem fæddist í júlí.  Hún er fyrsta barn Þorra míns og Emmu.
Við Maggi fórum síðan norður í land í eina viku, vorum á Akureyri fyrri hlutann og komu Kalli og Sara til okkar og síðan hittum við ferðahópinn á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgi og ferðuðumst með þeim í Fnjóskadalinn og í Fjörður.
Þessi mynd er tekin niðri í fjöru í Fjörðum.
Það tilheyrir í ferðum okkar að sitja við varðeld á kvöldin og syngja og skemmta okkur.
Ég skellti mér svo í Reykjavíkurmaraþonið og hljóp 10 km. og safnaði áheitum fyrir Parkinsonsamtökin.  Safnaði 56.500 kr. og þakka allan stuðninginn.  Myndin hér að ofan er af nokkrum samstarfsmönnum og vinum.  Æðislegur hópur og hvetjandi með eindæmum.
 . 
Og nú er haustið komið með allri sinni fegurð og skólinn byrjaður aftur og allt að komast í rútínu. Kalli farinn að lesa lögfræði og Sara að ljúka Flensborg og Ásta Sigrún byrjuð í námi um Alþjóða samskipti.  Gulli og Sandra komin í gang með sín verkefni, Gulli í sínu doktorsnámi og kennslu og Sandra vinnu í leikskólanum en fer von bráðar að takast á við ný verkefni í nýjum skóla og Hildur Saga farin í leikskólann aftur.  Við Maggi komin á okkar staði í skólunum og nokkuð sátt.
Og nú er bakkinn fallegi kominn í haustskrúða.  Þetta átti víst ekki að verða langt blogg í þetta skiptið en svona er þetta bara þegar maður byrjar á annað borð.

29.4.10

Blogghlé/leti!

Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði síðast, það er ekki svo með sagt að hér hafi ekki verið nóg að gera og ýmsu komið í verk.  Síðustu vikuna fyrir páska fór ég ásamt tveimur samstarfsmönnum mínum með 62 nemendur úr 9. bekk að Laugum í Sælingsdal.  Þar voru einnig 35 nemendur úr Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ ásamt 2 tveimur starfsmönnum þaðan.  Þarna vorum við í heila viku með þessa frábæru krakka sem nutu dvalarinnar í leik og starfi.  Ég tók náttúrulega prjónana með mér og prjónaði þennan snúna sjalkraga handa henni Ástu Maríu, mágkonu minni sem varð fimmtug þann 4.4.
Þegar heim kom fór ég beint í páskafrí sem var yndislegt, rólegheit og engin plön í gangi á heimilinu nema að njóta þess að vera saman, fara í göngutúra, borða góðan mat og hafa það sem allra best.
Við gerðum okkur þó ferð inn í Fljótshlíð (eins og sjálfsagt meira en helmingur landsmanna) til þess að sjá gosið á Fimmvörðuhálsi.  Við fórum með Þorkeli, Ástu, Jóni, Ástu Maríu, Helgu Dröfn, Lalla, Kristjáni, Árna Hlyni, Tómasi Snæ, Herði og Ástu Kristínu, takk fyrir yndislega ferð og samveru.  Þessi ferð var afmælisferð fyrir afa Kalla og fengum við að njóta með honum.  Ótrúlegt á að horfa þó úr fjarlægð væri (frá Þórólfsfelli).  Á meðan við vorum í Fljótshlíðinni var Kalli með vinum okkar Ellu, Garðari, Ingu og Einari ásamt fleirum uppi við sjálfar gosstöðvarnar.
Svo komu páskarnir með öllu tilheyrandi, páskaeggjum, góðum mat og frábærum brunch hjá afmælisbarni páskadags henni Ástu Maríu.
Ég er búin að hafa svo gaman af speglinum (sem ég nota sem bakka undir kertaglösin mín).  Nú var hann kominn í páskabúning en hægt er að sjá hann í haust- og jólabúningi í þessu bloggi http://siggalo.blogspot.com/2009/10/hausti-me-kertaljosum-inni-og-uti.html
Eftir að ég kláraði teppin, Flóafárið og teppið handa Þorra og Emmu, var ég bara lengi í gang aftur.  Nú er ég þó öll að koma til og er að prjóna þennan fallega sumarkjól handa Hildi Sögu minni og einnig er ég búin að kaupa í litla gollu við hann. 
Nú lofa ég sjálfri mér því að vera duglegri við bloggið, mér finnst þetta skemmtilegt og svo geta börnin mín stór og smá og aðrir ættingjar í útlöndum fylgst með og ég held bara að þau geri það:-) Bless í bili.

15.3.10

Flúðir og tvö teppi kláruð!

Við Maggi fórum á Flúðir um helgina og áttum yndislega helgi.  Það er svo gott að fara svona út úr bænum í kyrrðina í sveitinni og njóta þess að vera saman í rólegheitum, borða góðan mat og ég tala nú ekki um að vinna ýmislegt sem þarf að klára.  Maggi notaði tímann í ýmislegt vinnutengt og í námið sitt og spilaði á gítarinn inn á milli en ég notaði tímann í að ljúka endanlega við teppin sem ég hef verið að sauma.
Hér að ofan sjást svo herlegheitin, búið að sauma bindinguna á bæði teppin.
Á þessari mynd er stjörnuteppið (Flóafárið).

Og hér er það svo komið á sinn stað í sjónvarpssófanum. Ég held að ég sé að sættast við það.
Á þessari mynd er svo teppið þeirra Þorra og Emmu tilbúið til afhendingar en ég er að reyna að finna einhvern sem er á leið til Dublin til að taka það með sér, ég þori varla að senda það í pósti svo ef einhver sem les þetta blogg er á leið til Dublin og er til í að taka "smápakka" með sér, vinsamlega láta vita ;-)
Á þessari mynd er ég búin að taka forskot á sælunni og breiða þetta líka fallega teppi yfir rúmið mitt og ég get bara sagt að ég er alsæl með það og vona að þau verði það líka þegar það verður komið á þeirra rúm.
Þar sem ég verð ekki heima á afmælisdeginum mínum (verð vonandi á Laugum í Sælingsdal með 62 yndislegum 9. bekkingum), þá gaf Maggi mér afmælisgjöfina um helgina og voru það þessar þrjár bútasaumsbækur sem ég hafði óskað mér.  Nú er bara spurning hvað ég á að gera við tímann minn þar sem ég hef lokið við þau verkefni sem ég átti ókláruð, best að kíkja í bækurnar fínu ;-)

3.3.10

Ýmislegt.

Undanfarnar vikur hef ég verið heima vegna raddleysis. Það er mjög óþægilegt að vera flautuð út af á miðri önn og ég hef átt erfitt með að horfast í augu við það. Ég ákvað þó að nota tímann vel, þar sem ég er ekki rúmliggjandi eða óvinnufær með öllu, og vinna upp ýmislegt sem ég hef ekki haft tíma til.
Nei þetta er ekki peysan sem ég prjónaði á Hildi Sögu í fyrra heldur önnur ný og fín. Peysan sem hún fékk í fyrra hvarf með öllu og veit enginn hvar hún er niðurkomin. Húfan er á sínum stað svo það var ekkert annað að gera en prjóna nýja við húfuna.
Teppið handa Emmu og Þorra er nú að verða tilbúið. Á myndinni hér fyrir ofan þá er dekkið nánast tilbúið það vantar bara síðustu röndina utan með því. Ég er nú búin að sauma hana við og er nú búin að senda teppið í quilteringu, þar sem það verður sett saman og þá er eingöngu eftir að setja bindinguna á það.
Jæja þá eru það syndirnar og sú stærsta er Flóafárið frá því í fyrr. Ég kláraði það í fyrra vor og keypti allt sem þurfti til þess s.s. efni í bak, bindingu og vatt. Nú er ég búin að setja það saman.
Og ég er þessa dagana að stinga það og gengur það bara nokkuð vel þó svo að þetta sé fyrsta stóra verkefnið sem ég sting í vél.
Set myndir af því þegar ég er búin með það.

19.2.10

Þetta mjakast ;-)

Svona er staðan með teppið þeirra Þorra og Emmu. Fyrsta myndir sýnir þegar miðjan og næstu tvær raðir voru komnar saman.
Hér hefur svo aðeins bæst við og ágætis mynd komin á það.
Sú síðasta sýnir hver staðan er í dag, miðjan tilbúin þ.e. munsturhlutinn, bara eftir að sauma tvö horn við. Þá er að byrja á köntunum sem eiga að vera utan um allt teppið en þeir eru í þremur litum.

5.2.10

Flúðir, Gullfoss og bútasaumsteppi.

Við Maggi fórum að Flúðum um síðustu helgi. Við fórum fyrst og fremst með það í huga að slappa af og hvíla okkur. Þessar hvíldarferðir fela það helst í sér að hafa nógan mat og góðar veigar með, eitthvað skemmtilegt að lesa, handavinna er ávalt með í farteskinu og gítarinn góði. Svo má náttúrulega ekki gleyma sundfötum þar sem potturinn er óspart notaður (mörgum sinnum á dag).
Í þetta skiptið skelltum við okkur að Gullfossi. Veðrið var yndislegt og mig hefur lengi langað til þess að sjá hann í vetrarbúningi.
Við vorum á ferðinni um miðjan daginn og var birtan ótrúlega á þeim tíma dagsins

Ekki var Gullfoss í klakaböndum þó svo að kalt væri, en það var um -6° á Flúðum þegar við lögðum af stað og dálítið rok þannig að mér fannst nú bara skítakuldi þegar við komum upp að Sigríðarbúð því þar var enn kaldara.
Það var tölvert krap í fossinum og klaki á flúðunum.
Birtan var svo dulúðleg, þegar við vorum að leggja í hann aftur heim í bústað og sást vel til fjalla og inn á jökul. Hér skarta Jarlhetturnar sínu fegursta í ljósaskiptunum.
Það var tölvert kaldara við Gullfoss heldur en á Flúðum og allt freðið við Sigríðarbúð.
Þessi mynd er tekin á leið heim í bústað.
Í sumar sem leið giftu Þorri bróðir og Emma sig. Við Maggi gáfum þeim loforð um bútasaumsrúmteppi í brúðargjöf. Þau komu svo heim nú um jólin og völdu sér munstur og efni í teppið. Hér fyrir ofan má sjá efnin sem þau völdu sér. Ég tók þetta og saumavélina með mér á Flúðir og náði að sauma töluvert.
Hér má svo sjá munstrið sem þau völdu en það er frá Thimbleberries. Efnin eru jafnfremt frá því fyrirtæki
Ég náði að sauma 60 stóra ferninga og svo eru 480 litlir af brúna og drapplita og 6o stykki af þeim grænu og drapplitu.
Þeir litlu eru svo saumaðir annars vegar 4 ferningar í lengju og aðrir fjórir plús einn grænn og drapp í aðra lengju.
Lengjurnar eru síðan saumaðar við stóra ferninginn og hér er ein blokk komin. Efnið sem er undir blokkinni á að nota í kannt meðfram öllu teppinu. Það eru 60 svona blokkir sem fara í teppið eins og það verður endanlega og svo eru saumaðir kantar í tveimur brúnum litum og utanum blokkirnar og síðan kemur þessi kantur úr efninu hér að ofan. Þetta blogg er fyrir Emmu og Þorra svo þau sjái hvernig miðar. Ég er núna búin með 11 svona blokkir.

2.2.10

Viðurkenning!

Þetta fékk ég sent frá henni Hellen. Takk fyrir Hellen, ég hef ekki fengið slíkt áður. Þessari viðurkenningu fylgir að ég setji tengil yfir á bloggið hennar, ég á að skrifa 7 staðreyndir um sjálfa mig og senda 7 bloggurum viðurkenninguna áfram.
Ef við byrjum á staðreyndunum þá:
1. Ég hef haft hannyrðir ýmis konar sem áhugamál frá því ég man eftir mér sem lítilli stelpu svona 4-5 ára að sauma með langömmu minni Guðrúnu en hún lést þegar ég var 11 ára en hún var þá 97.
2. Ég er ekki morgunglöð!
3. Ég hef tamið mér að vera tiltölulega þolinmóð í seinni tíð en það er mér ekkert sérstaklega eðlislægt.
4. Ég er skelfilega hrædd við að keyra yfir ár og vötn í fjallaferðum.
5. Mér finnst ömmuhlutverkið það skemmtilegasta sem ég hef fengið um ævina.
6. Mér líður best þegar við erum öll saman fjölskyldan.
7. Ef ég ætla að kaupa mér föt fer ég alltaf í svörtu deildina, hahaha
Blog award!! I need to make a link from my blog to the blog of the person that sent me the award. I also need to say seven things about my self, and send the award to seven blogfriends.
1. Craftwork has been my hobby since I was little and I can remember myself 4-5 years old sewing with my great grandmother Guðrún and she died when I was 11 years old and then she was 97.
2. I am not a morning person!
3. I have tried to develope patience through the years although patience is not really in my nature.
4. I am petrified when crossing rivers and lakes, specially when I travel offroad.
5. I find being a grandmother the best role I have had in my life
6. I feel best when I am surrounded by my family
7. When I go shopping for chlothes, I go directly to the "black section" !
Ég vona að þið setjið þetta inn hjá ykkur elskurnar nú ef ekki þá bara það.

31.1.10

Er hún ekki fín, stúlkan mín?

Nú er hún Hildur Saga mín búin að fá pakkann frá mér og mér sýnist hún fín í nýju peysunni sinni.
Og ég sem hélt að peysan yrði allt of stór, en hún virðist passa vel á hana.
Flott módel!

15.1.10

Janúar að verða búinn, hvað tíminn líður.

Ótrúlegt hvað tíminn líður. Mér finnst eins og desember, jólin, áramótin og dvöl allra barnanna okkar hafa flogið fram hjá mér og nú er langt liðið á janúar 2010. Við fengum alla heim um jólin. Ásta Sigrún kom um miðjan desember og Gulli, Sandra og Hildur Saga komu þann 20. des. beint í útskriftarveislu Kalla okkar. Við erum sem sagt búin að vera hér saman öll sömul og Sara hans Kalla líka í 3 vikur. Nú hafa þau flogið í burtu hvert af öðru, Litla fjölskyldan fór heim til Eskilstuna þann 9. jan., Kalli fór með meistaraflokki FH þann 12. (kom til baka þann 16.) og Ásta Sigrún fór aftur út til Edinborgar þann 13. Héðan hafa því verið sætaferðir á Keflavíkurflugvöll. Við erum búin að hafa það dásamlegt.
Jóladagarnir voru náttúrulega þétt skipaðir af jólaboðum og fjölskylduhittingum og var dagskráin þétt skipuð hjá krökkunum, ekki eins hjá okkur gamla fólkinu. En það verður ekki sagt annað en við höfum notað þær stundir vel sem við áttum saman við leik og spjall. Svo vorum við Maggi svo heppin að fá að passa Hildi Sögu nokkur kvöld sem var bara dásamlegt. Hún er nú ótrúlega gott barn, litla sílið sem sér okkur nánast eingöngu sem "Skype-afa og ömmu". Ég held að hún sé bara orðin mikil afa- og ömmustelpa:-)
Hér eru svo nokkrar myndir af henni frá þessum yndislegu dögum okkar hér í Lyngberginu.

Þegar allir voru flognir á brott, fitjaði ég upp á peysu á Hildi Sögu mína. Ég notaði Léttlopa og reyndi að sameina margar hugmyndir, sem ég hef fengið í kollinn þegar ég hef verið að skoða bæði prjónablöð og vefsíður, í peysuna og prjónaði einnig húfu við hana. Ég er bara ánægð með útkomuna og er hún nú á komin í umslag til þeirrar litlu og fer í póst á morgun. Svo bíðum við bara eftir myndum frá Gulla og Söndru af henni í peysunni og húfunni.