11.6.12

Loksins, loksins, langþráð sumarfrí.

Það er einhvern veginn þannig að um leið og ég kemst í sumarfrí þá er fyrsta hugsunin að finna mér eitthvað á prjónana.  Í þetta skiptið er það fallegt bómullargarn úr Storkinum í peysu á hana Evu mína á Írlandi sem verður tveggja ára í júlí.
Eins og veðrið var í dag er yndislegt að sitja úti í sólinni og njóta.  Njóta veðurblíðunnar með eitthvað fallegt á prjónunum, kaffi við höndina og ekki verra að hafa eitthvað gott með kaffinu.
Ég læt þessa fallegu mynd fylgja með en þetta eru blómin sem ég fékk á mæðradaginn frá börnunum mínum.  Svona stóðu rósirnar í tvær vikur, yndislegar.


Takk fyrir innlitið og sjáumst fljótt aftur.

6.4.12

Þá er páskalöberinn tilbúinn rétt korter fyrir páska ;-)

Ég lofaði því víst í síðasta pósti að setja inn myndir þegar ég væri komin af stað með páskalöberinn og hef  reyndar ekki staðið við það en nú er hann tilbúinn og hér á eftir koma myndir af herlegheitunum.
Þessi er tekin þegar ég var búin að sauma bæði framhlið og bak og setja vattið á milli og var að máta hann á borðstofuborðið.  Ég sá það fyrir mér hvernig ég vildi hafa hann !

Hér er hann á strauborðinu og ég búin að næla allt vel saman og búin að hálfsauma briddinguna á.
Og svona lítur hann út.  Búin að ljúka við briddinguna, applikera eggin á hann (þau sýnast reyndar hvít á öðrum endanum en þau eru grændröfnótt og eru öll úr sama efninu.
Hér sjást eggin betur, þau eru þrjú þarna og svo tvö á hinum endanum
Fallegir kertastjakar komnir á sinn stað í lit sem fellur vel að grænu litunum í löbernum.
Og þarna er hann kominn, korter í páska.  Ég valdi þessa liti svo ég gæti notað hann eitthvað fram í vorið.
Takk fyrir innlitið og gleðilega páska.

10.3.12

Ýmislegt í gangi ;-)

Ég fór til Eskilstuna í febrúar.  Ungu hjónin skruppu til Parísar og við ömmgurnar vorum saman á meðan. Ótrúlegur tími sem við áttum saman og skemmtum okkur konunglega.  Gerðum nákvæmlega það sem okkur langaði til, þegar okkur langaði til !  Við fórum í strætó, í dansinn, leikhús, dýragarðinn, bæinn, lásum, knúsuðumst, bökuðum og fleira og fleira
Ég er búin að vera að ljúka nokkrum verkefnum svona hægt og bítandi og eitt af þeim er þessi taska sem ég byrjaði á í haust.  Tók hana upp aftur þegar ég kom heim og er um það bil að klára hana.
Ég er nú ekkert voðalega klár í því að applikera í vélinni en stakk nú bara nokkuð meira en ég ætlaði í upphafi, ágætt verkefni til að æfa sig.  Það er nú skemmtilegt að hafa svona góða aðstöðu og geta svo hlustað á útvarpið eða fylgst með einhverjum þáttum á tölvunni á meðan maður er að vinna.
Ég var mikið að hugsa um hvernig ég ætti að ganga frá henni og endaði með ljósu fóðri og rauðri bindingu.  
Ég á eftir að festa á hana handföngin/höldurnar, er enn að hugsa hvernig þær eigi að vera, klára það á morgun vonandi. Húsin eru ekkert skökk, það er bara svo erfitt að láta hana standa vel.
Ég er líka að prjóna lopapeysu á Magga minn og gengur frekar hægt en þetta er allt að koma vonandi klára ég hana fyrir páska.
Fór svo í Virku í dag og keypti mér nokkur efni í sætan páskalöber, hendi myndum af honum inn þegar ég er komin af stað með hann.
Nóg í bili.  Takk fyrir innlitið ;-)

4.2.12

Bútasaumur

Ég gerði svona snyrtibuddur/pennaveski fyrir jólin og gaf í jólagjafir.  Ég reyndi að velja efnin og litina eftir þeim sem áttu að fá þær t.d. fékk Sæunn bróðurdóttir mín þessa grænu og fyllti ég hana af allskonar snyrtidóti og svo setti ég ég "bókaorm" sem er bókamertki með þessu þar sem hún er svoddan bókaormur;-)
Á myndinni sést hvernig þetta er gert, fyrst saumar maður ræmur beint á bak.
Þessa bláu fékk hún Sigrún Ingibjörg bróðurdóttir mín.  Ég fyllti þessa líka með ýmsum snyrtivörum og bókamerki, því hún er líka mikið fyrir lestur.
Hér er ég búin að sauma budduna saman en er að setja í hana rennilás og snýr rangan út.
Þessa hér fyrir neðan gerði ég reyndar fyrst þannig að hún er prufan!  Hana ætla ég að eiga og fyllti hana af ýmiskonar pennum og nota hana sem pennaveski. Á þessari mynd er buddan/veskið fullgert.
Þessu teppi byrjaði ég á fyrir löngu síðan en það varð ekkert úr því að ég kláraði það.  Nú er Hildur mín Saga að verða fjögurra ára og fannst mér það vera allt of lítið fyrir hana.  Ég tók mig til og stækkaði það um eina mynsturrönd og bætti húsinu þar inn. Teppið heitir að mig minnir Dýrin í sveitinni.
Þetta er lúrteppi fyrir hana, mátulega stórt til að setja yfir sig í sögustund með pabba og mömmu.
Set eitthvað fleira hér inn eftir því sem tími leyfir.  Takk fyrir innlitið. 


8.1.12

Jól í Lyngbergi 2011 og heklaðar jólabjöllur.

Ég hef nú gert ýmislegt skemmtilegt frá því síðasta blogg birtist á þessari síðu en ég held ég sé ekkert að setja það hér inn núna, geri það kannski seinna.  En fyrir jólin þá heklaði ég svona jólabjöllur utan um seríur handa litlu fjölskyldunni í Eskilstuna, Ástu Sigrúnu og Kalla og Söru.  Þegar ég hafði lokið þessum þremur þá langaði mig að eiga svona líka svo ég gerði eina fyrir Lyngbergið.
Eins og þið vitið þá er þessi bakki algjört uppáhald hjá mér.  Hann er klæddur í nýjan búning eftir árstíðum og svona leit hann út núna um jólin.
Það snjóaði og snjóaði og eina nóttina þegar ég kom fram var birtan svo ótrúlega falleg og glugginn í eldhúsinu skartaði sínu fegursta í þessari birtu.  Ég tók myndirnar hér fyrir neðan án flass og finnst þær ennþá dulúðlegri fyrir bragðið.
Kannski ég komist í bloggstuð núna, hver veit?