23.3.09

Saumahelgi

Jæja þá er komið að því að segja frá saumhelginni minni. Ég hafði fyrir nokkuð löngu síðan skráð mig á bútasaumsnámskeið hjá Guðrúnu Erlu (sem býr í Ameríku og rekur þar nú fyrirtæki þar sem bæði eru hönnuð mynstur og efni til bútasaums). Námskeiðin voru tvö, annað á föstudagskvöldi frá 5-9 og hitt daginn eftir frá 9 um morguninn fram til kl. að ganga fimm. Það voru margar umsóknir um námskeiðin og komust færri að en vildu.
Við Maggi ákváðum að fá bústað á leigu og njóta helgarinnar. Við lögðum af stað föstudaginn 13. mars í hinu versta veðri. Maggi keyrði mig í Gaulverjabæinn þar sem námskeiðið var endanlega haldið (það voru 73 konur það kvöld). Síðan keyrði hann í bústaðinn sem er í Ásgarðslandi við Sogið.
Þetta kvöld var mjög skemmtilegt. Þar lærði ég að sauma beint á bak og vatt. Saumaði þennan líka skemmtilega löber sem ég set mynd af inn á bloggið síðar í vor því Guðrún Erla er að gefa út bók með mynstrinu og hún kemur ekki út fyrr en í maí svo við bíðum með það. Maggi sótti mig svo á námskeiðið og komumst við klakklaust í bústaðinn en veðrið var vægast sagt hræðilegt. Hann hafði þá komið okkur vel fyrir og notið þess að eiga stund fyrir sjálfan sig með gítarnum, góðum bókum og ég tala nú ekki um heita pottinn.
Á laugardagsmorgun var veðrið þannig að M vildi endilega keyra mig á námskeiðið (ég var nú bara fegin því). Það eina sem ég vissi var að verkefnið var lúrteppi. Við fengum litla miða þar sem unnið var í þrepum. Ég fékk þrep 1 og síðan koll af kolli eftir því sem þrepin unnust en þau voru 10. Ég vann stanslaust til kl. 12, en þá fengum við kaldan hádegisver (mjög góðan) og tók ég mér bara korters pásu. Þrátt fyrir það náði ég eingöngu að klára 6 þrep fram til kl. 15.30 en þá voru nokkrar konur komnar að því að setja herlegheitin saman (ótrúlega duglegar þessar konur, brunuðu áfram með bensínfætinum eins og ég veit ekki hvað, ekki allveg mín aðferð en...). Það var spenna í loftinu þegar Guðrún Erla rúllaði teppinu út og gripu konur andann á lofti. Það er ótrúlega fallegt. Við þurftum að vera búnar að pakka saman kl. 16.30 og fékk ég ljósrit af þeim þrepum sem ég átti eftir til þess að klára heima.
Maggi sótti mig og áttum við frábært kvöld og eyddum sunnudegi í bústaðnum fram að kvöldmat og héldum þá heim á leið, sátt og úthvíld andlega.
Ég pantaði efnin í verkefnin hjá Bót á Selfossi. Það eru nú ekki mínir litir sem fyrir valinu urðu en það er bara spennandi. Ég er nú búin með öll þrepin 10 og er að setja teppið saman. Ég er að verða búin með helminginn og það er bara nokkuð snoturt. Það hefur reyndar truflað mig nokkuð litaval þeirra í Bót en við sjáum til.
Myndir koma svo í vor þegar ég má setja þær á netið.

2 ummæli:

  1. Frábært blogg frú:)
    Hlakka rosalega til að sjá teppið, fyrir utan það hvað ég hlakka til að kúra með það í sófanum:)

    SvaraEyða
  2. Ég hlakka verulega til að sjá verkefnin þín.
    Kveðja, Anna Björg.

    SvaraEyða