Við Maggi fórum á Flúðir um helgina og áttum yndislega helgi. Það er svo gott að fara svona út úr bænum í kyrrðina í sveitinni og njóta þess að vera saman í rólegheitum, borða góðan mat og ég tala nú ekki um að vinna ýmislegt sem þarf að klára. Maggi notaði tímann í ýmislegt vinnutengt og í námið sitt og spilaði á gítarinn inn á milli en ég notaði tímann í að ljúka endanlega við teppin sem ég hef verið að sauma.
Hér að ofan sjást svo herlegheitin, búið að sauma bindinguna á bæði teppin.
Á þessari mynd er stjörnuteppið (Flóafárið).
Og hér er það svo komið á sinn stað í sjónvarpssófanum. Ég held að ég sé að sættast við það.
Á þessari mynd er svo teppið þeirra Þorra og Emmu tilbúið til afhendingar en ég er að reyna að finna einhvern sem er á leið til Dublin til að taka það með sér, ég þori varla að senda það í pósti svo ef einhver sem les þetta blogg er á leið til Dublin og er til í að taka "smápakka" með sér, vinsamlega láta vita ;-)
Á þessari mynd er ég búin að taka forskot á sælunni og breiða þetta líka fallega teppi yfir rúmið mitt og ég get bara sagt að ég er alsæl með það og vona að þau verði það líka þegar það verður komið á þeirra rúm.
Þar sem ég verð ekki heima á afmælisdeginum mínum (verð vonandi á Laugum í Sælingsdal með 62 yndislegum 9. bekkingum), þá gaf Maggi mér afmælisgjöfina um helgina og voru það þessar þrjár bútasaumsbækur sem ég hafði óskað mér. Nú er bara spurning hvað ég á að gera við tímann minn þar sem ég hef lokið við þau verkefni sem ég átti ókláruð, best að kíkja í bækurnar fínu ;-)