7.2.11

Leti eða bara nóg að gera!

Já leti eða er bara nóg að gera hjá mér?  Síðustu blogg hafa byrjað eitthvað á þá leið að nú sé langt síðan síðast eða langt frá því síðast blogg var sett hér inn.  Ég hallast helst að því að ég hafi bara nóg að gera.  Í haust hef ég nú aðallega verið að prjóna eitt og annað sem ég set myndir af hér fyrir neðan.  Jólin komu og fóru en ég held nú samt að það skemmtilegasta sem gerðist í haust var að þær komu til Íslands mæðgurnar frá Eskilstuna og ég naut þess að vera amma í nokkra daga.  Hildur Saga mín er orðin svo stór og dugleg og við áttum yndislegar stundir saman ömmgurnar.
Ég hef verið að föndra eitt og annað og eru þessi prjónamerki dæmi um það.  Ég hef reyndar verið að selja þau og renna þau út eins og heitar lummur.  Skemmtilegt að gera eitthvað allt annað en ég er vön.
Ástu Sigrúnu mína langaði í trefil/sjal og valdi litina í það í haust.  Við fundum síðan uppskrift af gömlu langsjali með skemmtilegu skeljamynstri sem ég prjónaði fyrir hana.  Það er úr einbandi og strekktum við það mátulega mikið þ.e. hún vildi hafa það strekkt en ekki svo mikið að það væri sjal, vildi hafa það sem trefil.
Þegar við Ásta Sigrún keyptum í sjalið keypti ég þennan plötulopa (sem er svo skemmtilega sprengdur í litnum) og tvo liti af einbandi til að prjóna með honum.  Nú er ég að ljúka við peysu úr þessu (á Hildi Sögu).
Hér fyrir neðan er svo mynd af peysunni en ég er bara búin að prjóna hana á eftir að ganga frá endum og sauma tölurnar á.  Set aðra mynd af henni þegar ég er búin að ganga frá og prjóna húfuna (sem er hálfprjónuð). Ég prjóna hana úr einföldum plötulopanum en skipti einbandinu út til skiptis rauðu og appelsínugulu.  Þá myndast þessar skemmtilegu rendur.
Mér finnst alltaf svo gaman að taka myndir hér heima og fylgir hér ein með.

Hér fyrir neðan eru myndir af bakstri og kókóskúlugerð en eins og ég hef áður sagt frá þá förum við Maggi oft í bústað fyrir jólin og gerum eitthvað skemmtilegt fyrir jólin.  Í þetta skiptið fórum við tvær ferðir, önnur var jólakortaferð en í hinni bjuggum við til kókóskúlurnar sem tilheyra nú eiginlega konfektgerð heimilisins.

Og á meðan ég gerði þær, hnoðaði Maggi í hnetusmjörskökur en þær eru látnar bíða úti við (kjöraðstæður -4°) og síðan bakaðar.  Eitt af því besta sem við gerum fyrir jólin.

Við gerum oft eitthvað nýstárlegt þegar við förum í bústað og um daginn steiktum við ástarpunga.  Við höfum oft steikt kleinur fyrir jól en aldrei ástarpunga og voru þeir bæði vel heppnaðir og hættulega góðir;-)


Og að lokum er hér mynd af peysu sem ég var að prjóna úr léttlopa á mig.  Það er svo merkilegt hvað ég er oft ósátt við peysur sem ég prjóna á mig sjálfa.  
Þá held ég að nóg sé komið í þetta blogg.  Ég er ekkert að telja upp öll jólaverkin en körfurnar voru á sínum stað og ýmislegt skemmtilegt rataði í þær sem ég hef ekki sett áður t.d. heimagert konfekt í litlum dósum og enskar skonsur o.fl.  Bless í bili og ég vona að það líði ekki eins langur tími fram að næsta bloggi.  

6 ummæli:

  1. En hvað það var gaman að lesa þennan pistil, Sigga! Mér finnst stundum eins og þú hafir fleiri tíma í sólarhringnum en ég.

    SvaraEyða
  2. Það finnst það fleirum Hellen!

    Fallegt hjá þér og hugmyndaríkt mamma mín:*

    SvaraEyða
  3. GEÐVEIK PEYSA! Ekkert smá flott.

    SvaraEyða
  4. Alltaf jafn fínt og falleg hjá þér Sigga! :)

    Helga Dröfn

    SvaraEyða
  5. Nammm.... má ég spyrja hvaða olíu þú notar til að steikja kleinur og punga upp úr? Ég sit slefandi við tölvuna, veit fátt betra en nýsteikta ástarpunga :)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Sæl Berglind.
      Fyrirgefðu hversu seint ég svara þér en ég sá bara ekki innleggið þitt fyrr en núna.
      Ég notaði Izio (held þetta sé rétt skrifað) við steikinguna.
      Kveðja
      Sigga

      Eyða