Ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að blogga. Ég veit að börnin mín veltast um af hlátri þegar og ef þau sjá þetta.
En ég hef nú í ótrúlega langan tíma átt mér áhugamál sem eru ýmis konar hannyrðir. Í gegnum árin hef ég haft mismikinn tíma til að sinna þessu áhugamáli en nú virðist runnið upp tímabil í ævi minni þar sem ég virðist hafa aukinn tíma og hef ekki á tilfinningunni að ég sé að stela tíma frá öðrum verkefnum sem ég þarf að setja í forgang.
Ég sá hjá samstarfskonu minni og skólasystur frá því í Kvennó bloggsíðu þar sem hún setur inn þá handavinnu sem hún er að vinna ásamt ýmsu sem hún hefur gert á liðnum árum. Um daginn keypti ég saumavél af henni (og hef setið við bútasaum síðan) og þegar hún kvaddi mig á tröppum heimilis hennar sagði hún: "og svo er bara að byrja að blogga Sigga". Ég hló nú bara og lét eins og þetta væri það síðasta sem ég myndi gera en viti menn....
Ég læt þessu nú lokið að sinni og þarf að huga vel að því sem hér verður birt og hvað ekki. Ég á ótrulegt safn handavinnu sem ég vildi gjarnan eiga myndir af á svona svæði, það er í rauninni synd að ég skuli ekki hafa tekið myndir af því sem ég hef unnið um dagana.