18.7.09

Þá er nú orðið ansi tómlegt hérna hjá okkur.

Þá er litla fjölskyldan farin aftur til Eskilstuna. Við erum búin að eiga ógleymanlegar stundir saman undanfarnar þrjár vikur en mér finnst tíminn hafa rokið áfram. Eins og ég var búin að segja frá áður, þá fórum við með þeim á Snæfellsnesið og áttum góðan dag þar.
Við fórum síðan á Akureyri í tvo daga þann 8. og 9. júlí. Gulli og Sandra bjuggu í þrjú ár fyrir norðan og útskrifuðust frá HA 2002 og giftu sig sama sumar í Grundarkirkju í Eyjafirði. Síðan lá leið þeirra til Svíþjóðar þar sem þau hafa búið síðan við nám og störf. Það var gaman að fara með þeim norður. Miklar breytingar hafa átt sér stað á Akureyri frá þeim tíma er þau bjuggu þar, heilu hverfin hafa risið og fl.
Við litum við hjá Kristni og Siddý í kvöldkaffi og einnig komu Helga Dröfn og Lalli í örheimsókn til okkar í litlu íbúðina í Hafnarstrætinu (sem er bara dásamleg svona fyrir eina nótt, leigð út af KÍ).
Ég notaði tækifærið og fór í Quiltbúðina á Akureyri og verslaði mér þar garn (Kauni) og uppskriftir fyrir það í peysu á mig og einnig í peysu á Hildi Sögu sem er langt komin eins og sést á myndinni hér til hliðar. Skemmtilegt að prjóna hana þar sem byrjað er á hálsmáli og prjónað niður. Ótrúlega skemmtilegt að prjóna úr þessu garni þar sem einn litur rennur saman við annan og veit maður varla hvað tekur við. Einnig keypti ég í bútasumsveggteppi fyrir Hildi Sögu (sem er ekki á dagskrá að sauma fyrr en í haust þegar ég fæ herbergið hennar ÁSM aftur). Skemmtileg búð Quiltbúðin og mæli ég með því að koma þar við þó ekki sé nema til að sjá öll teppin sem hanga þar og aðra handavinnu. Í búðinni er einnig hægt að fá alls konar smáhluti eins og tölur og fl.
Gulli varð þrítugur þann 12. júli og voru tvær veislur þann 11. Fyrri var haldin í þessu líka frábæra veðri í hádeginu og síðan komu vinirnir um kvöldið. Við sátum hér úti fram á rauða nótt við eld í arni og spjall með góðar veigar.
Það er langt síðan ég færði inn pistil hér og hefur eins og að framan sést ýmislegt á daga okkar drifið. Við vinkonurnar hittumst alltaf í Sléttuhlíð einu sinni á sumri og gerðum við það núna um miðjan mánuðinn og áttum frábæran dag saman. Við Inga gengum upp eftir og vorum aðeins eina klst. á leiðinni í þvílíkum hita að það lak af okkur þegar við komum.
Síddý og Brynhildur dótturdóttir hennar komu einnig við hjá okkur og var gaman að fá að sjá þá stuttu sem er tæplega 10 mánaða dugnaðarforkur.
Ásta Sigrún er komin heim (jei, jei, jei!!!) og er alsæl með hálfa árið sitt í Melbourne, Ástralíu. Hún var 36 klukkustundir á leiðinni heim, ég hefði ekki getað þetta að ég held. Það er yndislegt að vera búin að fá hana heim. Hún náði aðeins nokkrum dögum með litlu fjölskyldunni en náði þó að fara með þeim á Harry Potter myndina ásamt Kalla og Söru. Þá vorum við afi Maggi að passa og var sú stutta bara ánægð með okkur.
Búið er að mynda okkur Ingu með litlu ljósin okkar eins og sjá má. Og einnig kom sú stutta í heimsókn með Ingömmu svo Ásta Sigrún gæti séð hana.
Eins og ég sagði ofar þá er ég að komast aftur í prjónastuð og einnig skellti ég í Chilli-sultu áðan, hún er svo falleg, bæði í pottinum og krukkunum (ha,ha,ha).
Jæja ætli ég láti þessu ekki lokið. Við sitjum hér ein við Maggi, hann með gítarinn og ég tölvuna, það er ósköp rólegt hjá okkur en krakkarnir eru væntanlegir en það vantar litlu fjölskylduna frá Eskilstuna og þá er svo tómlegt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli