Já, að hugsa sér, heil vika liðin og rúmlega það frá því að Gulli, Sandra og Hildur Saga komu til landsins. Við erum búin að eiga svo frábæran tíma með þeim. Þau dvöldu hjá okkur fyrstu dagana, svo var haldið upp á eins árs afmæli frökenarinnar og svo hafa þau verið svo yndisleg að koma við hjá okkur og einnig að deila með okkur dögum hér á veröndinni í bíðskaparveðri og svo fórum við í frábæra dagsferð á Snæfellsnesið á fimmtudaginn.
Við fórum að Búðum og fórum í fjöruna þar sem Hildur Saga rótaði í sandinum og skreið um. Síðan fórum við á Arnarstapa að fuglabjarginu og fengum okkur nesti. Yndislegt að vera úti í náttúrunni og njóta. Hildur Saga er ótrúlega fljót að aðlagast breyttum aðstæðum, brosir við öllum þessum ættingjum sem hún hefur nú séð lítið af fram að þessu og er til í að brosa endalaust til okkar.
Við Maggi fengum að passa hana í gærkvöldi og er ótrúlegt hvað hún er örugg með sig, kvaddi foreldra sína og lék við okkur fram eftir kvöldi. Sú stutta ætlar að líkjast föður sínum að einu leiti, það er hægt að færa hana sofandi milli bæja án þess að hún rumski. Hún sofnaði hjá okkur um kl. 9 og þegar Gulli og Sandra komu að ná í hana um kl. ellefu, þá var hún enn sofandi og var klædd og færð í bílstólinn, borin út í bíl og keyrð heim án þess að rumska. Já hún er afar gott barn. Nú finnst mér tíminn líða allt of hratt og það saxast á dvöl þeirra hér á landi í þetta skiptið. Við ætlum samt að reyna að komast með þeim norður á Akureyri í vikunni og svo verður Gulli þrítugur 12. júlí og verður bæði brunch og partí þann 11. hér í Lyngberginu og hlökkum við mikið til. Svo kemur Ásta Sigrún heim þann 14. og þá verður nú fjör í Lyngberginu. En nú er að njóta tímans sem eftir er af heimsókn þeirra.
Ég get varla beðið!!!
SvaraEyða