16.11.09

Jóla, jóla, jóla....

Hér í Lyngberginu er jólaundirbúningur í fullum gangi. Þetta er skemmtilegasti tími ársins hjá okkur. Við höldum í hefðir og bætum við og breytum kannski örlítið en eitt breytist ekki, við byrjum snemma og njótum. Eitt af því sem við byrjuðum á fyrir nokkrum árum var að hætta að gefa jólagjafir til fullorðna fólksins í fjölskyldum okkar og færum þeim jólakörfu fulla af heimalöguðu góðgæti. Hér eru nokkur myndbrot af því sem við höfum verið að gera og ætlum að setja í þessar fallegu jólakörfur.
Við Inga (æskuvinkona mín) höfum undanfarin ár soðið niður græna tómata. Þeir eru soðnir í sykri, ediki og kryddi og eru dásamlegir með jólamatnum. Þessi siður er orðinn ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum hjá okkur báðum. Svo eru þessar krukkur fallegar í jólakörfurnar.
Appelsínumarmelaði er líka eitt af því sem við búum til fyrir jólin, þó svo að það sé einnig gert á öðrum árstímum. Það fer líka í jólakörfurnar.
Svo er það rúgbrauðið. Hér á þessum bæ er bökuð lifrarkæfa fyrir jólin og þykir ómissandi um hátíðirnar og þá verður að vera til heimasoðið rúgbrauð. Þetta rúgbrauð er soðið í 13 tíma í bakaraofninum og er svo auðvelt að gera. Ættingjar og vinir fá auðvitað lifrarkæfu og rúgbrauð í jólakörfuna.
Nú á aðeins að breyta innihaldi jólakörfunnar. Nú erum við búin að baka hrökkbrauð og hafrakex sem er smá tilbreyting.
Og nú er ísskápurinn að verða stútfullur af allskonar góðgæti handa vinum og vandamönnum, nammi namm.
Saumavélin hefur einnig verið í gangi og er ég að sauma nokkrar jólagjafir og er smá sýnishorn á þessu myndbroti. Sem sagt allt í fullum gangi hér í Lyngberginu og enn er margt ógert sem ég segi frá síðar.

5 ummæli:

  1. Dugnaðurinn, hrökkbrauðið er ÆÐISLEGT!
    Hlakka mikið til að koma heim og jólast með þér:*

    SvaraEyða
  2. Já elskan ég hlakka líka til að jólast með þér það er svo skemmtilegt hjá okkur þegar við jólumst

    SvaraEyða
  3. Þetta er eins og að kíkja í heimsókn á heimili jólasveinsins! Svo er þetta allt svo fallegt og girnilegt hjá þér, Sigga!

    SvaraEyða
  4. HEHEHE einmitt - eins og að kíkja í heimsókn á heimili jólasveinsins, ekki ofsögum sagt :)

    Takk fyrir okkur, karfan er æðisleg og mandarínurnar spænast upp! :)

    Kossar og knúsar. Helga Dröfn

    SvaraEyða