5.5.13

Ný heimkynni, Drekahúsið.

Þann 1. desember 2012 fluttum við hjónin úr Lyngbergi 17 að Drekavöllum 18 í Hafnarfirði.  Við höfðum búið í Lyngberginu í tæp 25 ár, í húsi sem við hönnuðum að mestu leyti sjálf og áttum þar yndisleg ár.  Í Lyngberginu ólum við upp börnin okkar þrjú og bjuggum þeim fallegt heimili þar sem okkur leið vel við leik og störf.  Á þessari bloggsíðu minni eru margar myndir frá Lyngberginu, bæði frá húsinu sjálfu og garðinum. 
Nú eru allir flognir úr hreiðrinu og við Maggi búin að búa um okkur á nýjum stað.  Okkur líður vel á Drekavöllunum og ég held bara að börnunum finnist þau vera að koma heim þegar þau koma í heimsókn þó svo þau hafi ekki búið hér með okkur.  Hildur Saga sonardóttir okkar kallar húsið Drekahúsið og gengur heimilið okkar því undir því nafni.
Það er í rauninni stórmál að taka upp heimili eftir 25 ár og minnka verulega við sig.
Krakkarnir hjálpuðu okkur við að pakka niður og við flutningana þó svo þau væru á fullu í prófum. Jónsi svili minn kom hér og málaði með okkur ásamt Tómasi Snæ. Þorkell tengdafaðir minn hjálpaði við flutninga.  Pabbi setti upp innréttingu með mér í þvottahusið/búrið. 
Við fengum ómælda hjálp við málnigarvinnu, flutninga og svo ég tali nú ekki um andlegan stuðning frá vinum okkar Ingu, Einari, Ellu og Garðari. Það er ólýsanlega dýrmætt að eiga allt þetta fólk að.
Rósir/blóm í vasa er eitthvað sem hefur fylgt okkur alla tíð, og auðvitað eru hér rósir í vasa frá henni Þórdísi vinkonu minni.
Hér eru túlípanarnir sem ég var með á föstunni, bleik/lilla og fallegir, uppáhaldsliturinn minn þegar kemur að túlípönum.
Nú er enginn garður en þessar líka heljarinnar svalir.  Við erum með 20fermetra svalir sem eru yfirbyggðar og með parketi á gólfinu.  Þær eru í vinkil og ótrúlega gott pláss á þeim.  Nú erum við komin með nokkrar plöntur í potta og erum svona að fikra okkur áfram með að gera svalirnar klárar fyrir sumarið.
 Rósir eru náttúrulega ómissandi á svalirnar og keypti Maggi þessa búketrós í gær.
Pelagónía er góð á svalirnar þar sem hún fælir burtu geitunga ;-)  Ég og geitungar eigum ekki samleið!
Hér eru svo húsgögnin okkar sem við vorum líka með í Lyngberginu, hjólaborðið hefur reyndar öðlast nýtt hlutverk hér á svölunum og gott að hafa það fyrir kaffibollann á morgnana.
Fór í vikunni og keypti þessar mottur til að fá smá lit í umhverfið sem við erum að reyna að skapa hér.
Man ekki hvað þetta blóm heitir en knúpparnir á því verða antíkbleikir þegar sólin nær að lita þá í vor.
Þarna er svo mynd af litlunni minni í Eskilstuna sem verður bráðum fimm ára og stóra systir.  Hún er búin að koma tvisvar til landsins síðan við fluttum og kunni bara vel við sig í Drekahúsinu.

Látum þessum pistli lokið að sinni, takk fyrir innlitið.

8 ummæli:

  1. Gaman að lesa bloggið þitt, Sigga, ég var farin að bíða. Allt svo fallegt hjá þér eins og áður! Til hamingju með nýja heimilið!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Hellen. Það er nú að verða ár frá síðustu færslu, datt einhvern veginn úr bloggstuði, aldrei að vita nema ég komist í gang með það aftur.

      Eyða
  2. Drekahúsið er yndislegt. Mikið er bloggið þitt líka fallegt mamma mín
    <3

    SvaraEyða
  3. Sæl
    Ég er að kíkja hér inn í fyrsta sinn, og líkar vel það sem ég sé. Fallegt heimili sem þú átt, til hamingju með það.
    kveðja Ása

    SvaraEyða
  4. Ertu tha Amma Dreki? Mjog fallegt og til hamingju med nyja heimilid.
    Kv. Brynja

    SvaraEyða
    Svör
    1. Já Brynja ;-) Það er búið að hlæja mikið að því þar sem bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna voru í miklu uppáhaldi hjá krökkunum mínum (og okkur foreldrunum). Takk fyrir kveðjuna.

      Eyða