15.10.09

Edinborg, yndislega Edinborg

Ég er svo lánsöm að Ásta Sigrún mín ákvað fyrir fjórum árum að fara til náms í Edinborg í Skotlandi. Ég hef farið með henni á haustin og aðstoðað hana við að koma sér fyrir á hinum ýmsu stöðum í borginni. Fyrsta árið hennar þá bjó hún í Corstorphine í vestur hluta borgarinnar og síðan í tvö ár á stúdentagarði í Musselburgh sem er í austur hluta borgarinnar og nú í haust flutti hún í The Old town sem er rétt hjá kastalanum. Í þessum ferðum höfum við átt yndislega tíma saman og ógleymanlega. Eins og sjá má á myndunum þá var ýmislegt að gera hjá okkur.
Í september héldum við af stað og vorum ákaflega spenntar að komast í íbúðina. Við höfðum aðeins séð myndir úr henni og vissum svo sem hvernig herbergin litu út en spennan var samt í hámarki þegar við loks komum á áfangastað 32 Buccleuch street. Mete (tyrkneskur strákur (ungur maður)meðleigjandi hennar) tók á móti okkur með kertaljósum og tei sem ég þáði með þökkum enda dálítið lúin eftir ferðalagið. Síðan tókum við til starfa og breyttum uppröðuninni í herberginu eða öllu heldur snérum öllu um 180°, já klukkan var náttúrulega bara að ganga 12 að kvöldi!!! Síðan fórum við að sofa og byrjuðum svo snemma morguninn eftir að þrífa, þvo gluggatjöld og koma dótinu hennar fyrir ásamt því að Ásta Sigrún átti að mæta í skólann. Við hittumst svo í Fort Kinnear og sóttum dótið hennar sem var búið að vera þar í geymslu síðan í febrúar eða frá því hún lagði land undir fót og fór til Ástralíu. Hér fyrir ofan eru svo myndir af herlegheitunum þegar búið var að koma öllu fyrir í herberginu hennar og gera það heimilislegt og fallegt. Íbúðin er ótrúlega skemmtileg, er á annarri hæð í húsi frá því um 1800 og er hátt til lofts og allir gluggar um tveggja metra háir með einföldu gleri, en húsið er friðað svo ekki má breyta útliti þess og þar með töldum gluggum. Viðarhlerar eru fyrir gluggum í herbergjum og stofunni. Fyrir utan herbergi Ástu Sigrúnar, er annað svefnherbergi (fyrir Mete), stofa, eldhús, baðherbergi og lítil geymsla. Hér fyrir ofan eru myndir úr stofu og eldhúsi.
Ásta Sigrún var náttúrulega í skólanum en þess á milli nutum við samverunnar með ýmsu móti, fyrir utan það að þvo þvott og annað sem var búið að vera í geymslunni, eldaði hún handa mér og bjó til yndislegasta salat sem ég hef fengið! Sjáið bara myndina. Við skelltum í gerbollur sem hún gat fryst og átt fram á haustið og fleira og fleira.

Hér fyrir ofan eru myndir af götunni hennar, útsýninu úr herberginu hennar og svo daman sjálf fyrir utan útidyrnar á húsinu hennar.
Í þessari ferð dvaldi ég óvenju lengi með henni úti þannig að við gátum líka gert ýmislegt fleira en hér er sagt frá fyrir ofan. Við tókum t.d. heilan laugardag í göngu um gamla bæinn og eru myndirnar teknar í þeim göngutúr. Þar er t.d. mynd af "útskriftarsal" McEwan Hall, sem tilheyrir University of Edinburg, kastalanum (tekin frá Grassmarket), Viktoria street og The Royal Mile, yndislegt. Það eru forréttindi að hafa fengið að fara í þessar ferðir með henni og við erum búnar að bralla margt í þeim og spjalla og ganga og, og, og, ég gæti endalaust haldið áfram. Takk fyrir samveruna elskan í öllum ferðunum, hvert skyldum við fara næst?

3 ummæli:

  1. Þetta hafa verið alveg yndislegustu ferðir og stundir sem við höfum átt:) Þessi íbúð slær samt held ég öll met í yndislegheitum.
    Einsog Corstorphine var hrikaleg þar til við vorum búnar að taka hana í gegn:) Það er allavegna alveg ljóst að ég gæti þetta ekki án þín-fyrir utan það hvað þær væri hræðilega leiðinlegt!

    Takk fyrir samveruna elsku mamma mín, núna er bara að leggja höfuðið í bleyti og skoða hvert við förum næst?

    Er það ekki bara Tívolí á næstu jólaföstu?

    SvaraEyða
  2. Kannski ekki næstu jólaföstu Ásta Sigrún mín en hugsanlega þar næstu

    SvaraEyða