6.12.09

Jóla, jóla, framhald

Jólaundirbúningur heldur áfram hér í Lyngberginu og er jólakransinn kominn á sinn stað á útihurðinni. Ég var nú í fyrra fallinu með hann í ár þar sem ég var með kvennaboð hér síðasta fimmtudaginn í nóvember. Þá var auðvitað góð afsökun til þess að búa hann til og setja upp.

Það er einnig orðið jólalegt hér innanhúss, aðventuborðið skartar sínu fegursta og ég er farin að tína fram jóladótið svona smátt og smátt til að skreyta með.

Matargerð, bakstur og fleira er í fullum gangi og búið er t.d. að gera kókóskúlurnar sem ekki mega missa sín á aðventunni. Þær eru bara hrein hollusta!! þ.e. ég hakka saman döðlur, gráfíkjur og marsipan, bý til litlar kúlur sem ég velti upp úr bráðnu dökku súkkulaði og svo upp úr kókósmjöli.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá afrakstur síðustu helga, þ.e. kókóskúlur, lifrarpaté, smákökur, laufabrauð sem við skerum alltaf út á Melhaga hjá tengdó og í Fagrabergi með mömmu og pabba. Einnig má sjá chillisultu og biscotti en það fer í körfurnar góðu.

Ég hef einnig setið við saumavélina upp á síðkastið og saumaði þessa poka sem ég ætla svo að fylla með mandarínum, hnetum og sprittkertum handa vel völdum ættingjum í jólagjafir.

Eins og ég sagði í síðasta bloggi, þá er þetta skemmtilegasti tími ársins að mér finnst og ég nýt þess að baka, sauma, prjóna og dunda mér við þetta allt saman. Ásta Sigrún kemur heim í jólafrí á miðvikudaginn og verður nú heldur betur gott að fá hana heim. Við fengum þær fréttir um daginn að litla fjölskyldan í Eskilstuna ætlar að koma og dvelja hjá okkur yfir jólin og þá verður fjör í kotinu. Ég get varla beðið. Kalli okkar útskrifast svo stúdent þann 20. svo það er nóg að gera. Læt þetta nægja í bili.

16.11.09

Jóla, jóla, jóla....

Hér í Lyngberginu er jólaundirbúningur í fullum gangi. Þetta er skemmtilegasti tími ársins hjá okkur. Við höldum í hefðir og bætum við og breytum kannski örlítið en eitt breytist ekki, við byrjum snemma og njótum. Eitt af því sem við byrjuðum á fyrir nokkrum árum var að hætta að gefa jólagjafir til fullorðna fólksins í fjölskyldum okkar og færum þeim jólakörfu fulla af heimalöguðu góðgæti. Hér eru nokkur myndbrot af því sem við höfum verið að gera og ætlum að setja í þessar fallegu jólakörfur.
Við Inga (æskuvinkona mín) höfum undanfarin ár soðið niður græna tómata. Þeir eru soðnir í sykri, ediki og kryddi og eru dásamlegir með jólamatnum. Þessi siður er orðinn ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum hjá okkur báðum. Svo eru þessar krukkur fallegar í jólakörfurnar.
Appelsínumarmelaði er líka eitt af því sem við búum til fyrir jólin, þó svo að það sé einnig gert á öðrum árstímum. Það fer líka í jólakörfurnar.
Svo er það rúgbrauðið. Hér á þessum bæ er bökuð lifrarkæfa fyrir jólin og þykir ómissandi um hátíðirnar og þá verður að vera til heimasoðið rúgbrauð. Þetta rúgbrauð er soðið í 13 tíma í bakaraofninum og er svo auðvelt að gera. Ættingjar og vinir fá auðvitað lifrarkæfu og rúgbrauð í jólakörfuna.
Nú á aðeins að breyta innihaldi jólakörfunnar. Nú erum við búin að baka hrökkbrauð og hafrakex sem er smá tilbreyting.
Og nú er ísskápurinn að verða stútfullur af allskonar góðgæti handa vinum og vandamönnum, nammi namm.
Saumavélin hefur einnig verið í gangi og er ég að sauma nokkrar jólagjafir og er smá sýnishorn á þessu myndbroti. Sem sagt allt í fullum gangi hér í Lyngberginu og enn er margt ógert sem ég segi frá síðar.

7.11.09

Slökun á Flúðum

Undanfarin ár höfum við fjölskyldan farið í bústað í vetrarfríinu. Í ár var vetrarfríið ekki á sama tíma hjá okkur Magga en við létum samt verða af því að fara að Flúðum. Við vorum í bústað í Heiðarbyggðinni og var það ótrúlega gott. Ég föndra yfirleitt jólakortin í þessum ferðum og Maggi hefur oftast nær notað tímann í að líma myndir ársins í fjölskyldualbúmið. Í þessari ferð voru jú jólakortin gerð alls 90 stk. og einnig pakkakortin. Maggi notaði tímann í að læra og einnig í ýmiskonar vinnu fyrir skólann ásamt því að nota heitapottinn reglulega:-)
Á myndinni hér að ofan má sjá nokkrar gerðir jólakorta.
Veðrið var dásamlegt flesta dagana. Á myndunum sést hversu fallegt tunglskinið var, föndurdótið mitt, Maggi í þungum þönkum, "jólamatur" í móanum og bíllin að morgni sunnudags, alhélaður í morgunsólinni. Svona ferðir eru nærandi fyrir andann og sálina og ég tala nú ekki um samveru okkar.

25.10.09

Ein græn og væn .

Bara svona að gamni þá set ég inn myndir af Hildi Sögu minni í nýju lopapeysunni sem ég var að klára. Kalli fór í gærmorgun til Stokkhólms á tónleika með Muse og gistir í Eskilstuna hjá litlu fjölskyldunni og fyrst að ferð féll var ekkert annað í stöðunni en klára peysuna. Í mynstrinu áttu að vera ljósbláar klukkur en ég breytti því og notaði fjólubláan lit. Kemur bara vel út.
Sú stutta er nú ekki amalegt módel.
Það er svolítill sláttur á minni á þessari mynd.

15.10.09

Edinborg, yndislega Edinborg

Ég er svo lánsöm að Ásta Sigrún mín ákvað fyrir fjórum árum að fara til náms í Edinborg í Skotlandi. Ég hef farið með henni á haustin og aðstoðað hana við að koma sér fyrir á hinum ýmsu stöðum í borginni. Fyrsta árið hennar þá bjó hún í Corstorphine í vestur hluta borgarinnar og síðan í tvö ár á stúdentagarði í Musselburgh sem er í austur hluta borgarinnar og nú í haust flutti hún í The Old town sem er rétt hjá kastalanum. Í þessum ferðum höfum við átt yndislega tíma saman og ógleymanlega. Eins og sjá má á myndunum þá var ýmislegt að gera hjá okkur.
Í september héldum við af stað og vorum ákaflega spenntar að komast í íbúðina. Við höfðum aðeins séð myndir úr henni og vissum svo sem hvernig herbergin litu út en spennan var samt í hámarki þegar við loks komum á áfangastað 32 Buccleuch street. Mete (tyrkneskur strákur (ungur maður)meðleigjandi hennar) tók á móti okkur með kertaljósum og tei sem ég þáði með þökkum enda dálítið lúin eftir ferðalagið. Síðan tókum við til starfa og breyttum uppröðuninni í herberginu eða öllu heldur snérum öllu um 180°, já klukkan var náttúrulega bara að ganga 12 að kvöldi!!! Síðan fórum við að sofa og byrjuðum svo snemma morguninn eftir að þrífa, þvo gluggatjöld og koma dótinu hennar fyrir ásamt því að Ásta Sigrún átti að mæta í skólann. Við hittumst svo í Fort Kinnear og sóttum dótið hennar sem var búið að vera þar í geymslu síðan í febrúar eða frá því hún lagði land undir fót og fór til Ástralíu. Hér fyrir ofan eru svo myndir af herlegheitunum þegar búið var að koma öllu fyrir í herberginu hennar og gera það heimilislegt og fallegt. Íbúðin er ótrúlega skemmtileg, er á annarri hæð í húsi frá því um 1800 og er hátt til lofts og allir gluggar um tveggja metra háir með einföldu gleri, en húsið er friðað svo ekki má breyta útliti þess og þar með töldum gluggum. Viðarhlerar eru fyrir gluggum í herbergjum og stofunni. Fyrir utan herbergi Ástu Sigrúnar, er annað svefnherbergi (fyrir Mete), stofa, eldhús, baðherbergi og lítil geymsla. Hér fyrir ofan eru myndir úr stofu og eldhúsi.
Ásta Sigrún var náttúrulega í skólanum en þess á milli nutum við samverunnar með ýmsu móti, fyrir utan það að þvo þvott og annað sem var búið að vera í geymslunni, eldaði hún handa mér og bjó til yndislegasta salat sem ég hef fengið! Sjáið bara myndina. Við skelltum í gerbollur sem hún gat fryst og átt fram á haustið og fleira og fleira.

Hér fyrir ofan eru myndir af götunni hennar, útsýninu úr herberginu hennar og svo daman sjálf fyrir utan útidyrnar á húsinu hennar.
Í þessari ferð dvaldi ég óvenju lengi með henni úti þannig að við gátum líka gert ýmislegt fleira en hér er sagt frá fyrir ofan. Við tókum t.d. heilan laugardag í göngu um gamla bæinn og eru myndirnar teknar í þeim göngutúr. Þar er t.d. mynd af "útskriftarsal" McEwan Hall, sem tilheyrir University of Edinburg, kastalanum (tekin frá Grassmarket), Viktoria street og The Royal Mile, yndislegt. Það eru forréttindi að hafa fengið að fara í þessar ferðir með henni og við erum búnar að bralla margt í þeim og spjalla og ganga og, og, og, ég gæti endalaust haldið áfram. Takk fyrir samveruna elskan í öllum ferðunum, hvert skyldum við fara næst?

7.10.09

Haustið með kertaljósum inni og úti

Já það er fátt eins fallegt og kertaljós þegar fer að rökkva á haustin. Ég skoða margar bloggsíður og þar fær maður heilmargar hugmyndir. Ég á heil ósköp af kertalugtum og kertastjökum og sá um daginn á einni bloggsíðu hvað hægt er að gera skemmtilega hluti á einfaldan hátt. Ég skellti mér til Reykjavíkur í dag og keypti þennan spegil og raðaði svo nokkrum kertalugtum, glösum og fl. á hann og hef hann á borðstofuborðinu og er þetta ekki flott?
Og ekki er það síðra þegar búið er að kveikja á kertunum.
Eða hvað ?
Einnig er ég mjög sátt við þessa uppstillingu.
Við höfum undan farin ár sett kertalugtir út á borð sem er hér á stéttinni fyrir framan húsið okkar. Þar lifa kertaljós nánast alla daga yfir haust- og vetrartímann
Og það er fallegast þegar það er frost og ég tala nú ekki um þegar það snjóar.
Erikur og Silfurkambur lífga upp á.

15.9.09

Þá er hann Kalli minn sáttur.

Jæja þá er ég loksins búin með peysuna hans Kalla míns. Hann er búinn að bíða allt of lengi eftir henni. Ég prjónaði hana um verslunarmannahelgina en átti eftir að ganga frá henni, klippa og setja rennilásinn í. Ég er búin að kvíða því að gera þetta því ég hef aðeins einu sinni áður sett rennilás í peysu og var ekkert sérstaklega ánægð með útkomuna. En nú er ég búin og gekk bara nokkuð vel.
Og Kalli minn er sáttur!

13.9.09

Haustið er minn tími!

Mér finnst sumarið yndislegt með björtum nóttum og (mis)hlýjum dögum. Mér finnst frábært að ferðast með karlinum mínum og góðum vinum og ég tala nú ekki um þegar börnin koma með okkur. Ég nýt þess að sitja úti á góðum sumardögum og sötra kaffið mitt og jafnvel að taka handavinnuna mína út með mér. En haustið er minn tími! Litirnir í garðinum okkar eru svo ótrúlega fallegir, blóm, tré og runnar undirbúa dvala og tapa laufum og blómknúppum en fegurðin er ólýsanleg. Og nú gefast tækifæri til þess að kveikja á kertum, ég elska kertaljós.
Eins og sjá má á myndinni sem ég er búin að setja í síðuhausinn þá eru litirnir í birkikvistinum fallegir og þessi mynd hér að ofan er tekin nokkrum dögum síðar og ekki eru þeir litir síðri.
Nú hafa haustplöntur tekið við af sumarplöntum og skarta sínu fegursta. Einnig finnst mér skemmtilegt að færa litina inn í hús og búa til skreytingar til að hafa inni við.Í dag hittumst við stór(tengda)fjölskyldan, eins og við höfum gert undanfarið, þ.e. að hittast einu sinni í mánuði í hádegisverð. Við Ásta Sigrún föndruðum ýmislegt úr haustefniviði úr garðinum og sjáið þið bara afraksturinn.

Svo nú eru haustskreytingar út um allt hús hjá okkur í Lyngberginu.

Fallegt ekki satt?

Og svo er náttúrulega búið að búa til rabarbarasultu og rifsið bíður þess að húsmóðirin gefi sér tíma til að gera hlaup úr því.

7.9.09

Það er kominn tími á blogg er það ekki?

Ég endaði síðasta (stutta) blogg á því að segja frá því að ég hefði verið í ferðalagi með hópi fólks sem við höfum ferðast með um verslunarmannahelgina undanfarin ár. Þessi hóður samanstendur af æskuvinkonum mínum þeim Ingu og Ellu og fjölskyldum þeirra. Það bætist í hópinn á hverju ári og vorum við sex fjölskyldur í ferðinni að þessu sinni og vorum við þegar flest var 21. Við Maggi lögðum af stað úr Lyngberginu seint á fimmtudeginum og hittum Ingu, Einar, Sigrúnu Ellu dóttur þeirra og Þórhildi (dóttur Ellu og Garðars), Magnús Inga, Siggu og Ingibjörgu litlu dóttur þeirra og Guðmund og Elísabetu (foreldra Siggu), Guðna og Helgu (þeirra börn) og ekki má gleyma Massimo (hundinum þeirra), á Suðurlandsveginum við Rauðavatn. Allir í besta ferðastuði og héldum áleiðis í Hrífunes. Við komum þangað seint um kvöld, eftir hefðbundin stopp á leiðinni. Þar komum við okkur vel fyrir í tjaldvögnum og fellihýsi og áttum notalega stund þar til fólk fór að koma sér í svefn. Á föstudeginum lögðum við í hann austur að Breiðamerkurlóni. Veðrið var nokkuð rysjótt, rigndi dálítið á okkur, en þegar austur kom var hið besta veður og skartaði

lónið sínu fegursta, ég hef sjaldan séð það svona fallegt og stútfullt af ísjökum. Á leið heim stoppuðum við á Kirkjubæjarklaustri og fórum í sund og síðan fengum við okkur hressingu að Kvískerjum.
Þegar heim kom var Hanna (mágkona Garðars) komin með sonum sínum Jóni Arnari og Marteini og voru þau að reisa tjaldvagninn þegar við mættum í "Pottinn" en þar höfum við áður dvalið um verslunarmannahelgi. Um kvöldið var leikið og sungið eins og alltaf í þessum ferðum og spilað á gítara fram á rauða nótt. Um miðnættið bættust svo Kalli, Ásta Sigrún (okkar börn) og Diddi (sonur Ingu og Einars) í hópinn. Mátti varla sjá hverjir skemmtu sér betur, unga fólkið eða gamlingjarnir! Á laugardeginum bættust svo Ella og Garðar í hópinn og var þá lagt af stað upp á hálendið að skoða Lakagíga. Við Maggi höfðum aldrei komið á þetta svæði og var mikil tilhlökkun. Við vorum ekkert sérstaklega heppin með veðrið en það var ótrúlegt hvað birti upp þegar við komum upp á hálendið.
Eins og sést hér á myndinni til hliðar var þetta fríður hópur sem var í þessari ferð og það skemmtilegasta við þessa ferð var hversu mörg ungmenni voru með. Við vorum með 9 ungmenni á aldrinum 14-23 ára, er það ekki bara dásamlegt? Og svo auðvitað litla Ingibjörg 4 mánaða.
Þegar við komum heim á mánudeginum þá skellti ég mér í það að þvo og pakka því ég var á leið til Svíþjóðar til Gulla, Söndru og Hildar Sögu á miðvikudagsmorgninum. Ég reyndar stoppaði í Stokkhólmi á leiðinni til þeirra og náði að hitta Rannveigu samkennara minn og Eyjólf manninn hennar sem þar hafa dvalið frá því í vor. Þeirra dvöl þar kemur reyndar ekki til af góðu því Eyjólfur hefur verið þar vegna mergskipta. Við áttum góðan tíma þar sem við fengum okkur brunch og spjölluðum þessi líka ósköp. Ég rétt náði lestinni til Eskilstuna og var orðin spennt að hitta litlu fjölskylduna. Ég átti frábæra daga með þeim, þar sem dekrað var við mig daginn út og inn. Við fórum í skemmtilega ferð til Trussa (vona að þetta sé rétt skrifað hjá mér), sem er skemmtilegur bær með handverksverslunum í tugatali. Fallegt handverk úr leir og ég tala nú ekki um hör. Sæmundur pabbi Söndru er í Eskilstuna núna og er með bát þar. Hann fór með okkur í bátsferð og er myndin af okkur "ömgunum" tekin þar um borð. Við fórum á ströndina og áttum góðar stundir heima hjá þeim. Ég flaug síðan með þeim til Dublin mánudaginn 5. ágúst þar sem við hittum Þorra bróður og Emmu og sama dag komu mamma, pabbi og Ásta Sigrún frá Íslandi. Tilefnið var brúðkaup þeirra Þorra og Emmu og bættust síðan fleiri fjölskyldumeðlimir í hópinn eftir því sem dagarnir liðu. Berglind, Sigrún og Sæunn komu á þriðjudegi, Maggi, Kalli komu á miðvikudeginum og Ásgeir og Hildigunnur
komu frá New York þann sama dag. Þá vorum við öll saman komin í fyrsta skipti hjá Þorra á heimili hans og Emmu í Dublin og reyndar í fyrsta skipti öll saman í útlöndum. Hópurinn er fallegur hér á myndinni ekki satt? En myndin er tekin á miðvikudagskvöldinu þar sem við vorum í þvílíkri veislu hjá honum en Emma var þá farin til foreldra sinna og ætlaði að gista hjá þeim nóttina fyrir brúðkaupið. Við stelpurnar vorum reyndar búnar að gæsa Emmu á þriðjudeginum og áttum frábæra kvöldstund með vinum hennar og samstarfskonum.
Þorri var að hitta Hildi Sögu í fyrsta skipti og fór vel á með þeim eins og sést hér á myndinni til hliðar.
Það var svo sem ekki að sjá að þau hefðu ekki hist fyrr, enda samskipti auðveld í dag með Skype og annarri tækni.
Á fimmtudeginum vorum við sem gistum á hóteli í Dublin, sótt og fórum öll saman í lítilli rútu til Carton House, en þar fór hjónavígslan fram. Eins og sést á myndinni er þetta ótrúlega

fallegt hús og umhverfið einnig fallegt. Þarna er golfvöllur af stærstu gerð, veitingastaður, hótel og fleira og fleira. Skötuhjúin voru gefin saman í fallegum sal í gamla húsinu og tóku margir af fjölskyldunni þátt í athöfninni með einum eða öðrum hætti, upplestri, tónlist og fleiru. Athöfnin var yndislega falleg og hátíðleg. Eftir athöfnina voru léttar veitingar og svo náttúrulega myndatökur, ég segi tökur þar sem þurfti náttúrulega að mynda hjónin með ýmsum hópum, vinum, ættingjum og öllum saman og svo framvegis. Síðan var matur kl. 6 og stóð veislan fram á nótt með þvílíkum
veitingum, ræðuhöldum, söng og dansi.
Við Maggi stálum síðan Hildi Sögu sem svaf á milli okkar um nóttina í fyrsta skipti vonandi af mörgum. Unga fólkið hélt gleðinni áfram fram á rauða nótt. Og eins og sjá má á myndinni hér að ofan hvarf ekki brosið að nýju hjónunum allt kvöldið. Flestir gestanna gistu síðan á hótelinu um nóttina og hittumst við svo í morgunmat og síðan buðu Þorri og Emma okkur öllum í hádegisverð í golfklúbbnum. Ásgeir þurfti reyndar að taka próf frá því snemma um morguninn og fram á miðjan dag (á netinu). Þetta var endalaus veisla og sögðu margir að þetta væri bara eins og hjá víkingunum forðum. Á laugardeginum buðu síðan foreldrar Emmu og bróðir hennar hann Barry okkur öllum ásamt nágrönnum þeirra og frændfólki Emmu í garðveislu þar sem huggulegheitin og veisluhöldin héldu áfram fram á kvöld. Ásgeir var þá floginn til New York aftur og Hildigunnur til Íslands.
Já þetta verður ógleymanlegt. Við flugum síðan í hinar og þessar áttir á sunnudeginum, við úr Lyngberginu og Berglind og stelpurnar til Íslands, Gulli, Sandra og Hildur Saga til Eskilstuna, Þorri og Emma til Spánar í brúðkaupsferð í viku, en mamma og pabbi urðu eftir í Dublin og skiluðu sér heil heim viku síðar. Ævintýri! já og það af bestu gerð.

4.8.09

Er hún flott eða er hún flott?

Þá erum við komin heim úr útilegunni, frábær helgi með frábærum vinum. Ég ætla að segja frá því síðar. Set bara að gamni inn mynd af peysunni úr Kauni garninu sem ég var að prjóna á Hildi mína Sögu. Annað kvöld verð ég komin með hana í fangið. Held af stað til Dublin í fyrramálið með smá stoppi á leiðinni í Eskilstuna!
Meira seinna t.d. lopapeysa á Kalla sem ég kláraði í útilegunni, á bara eftir að ganga frá endum og setja rennilás í hana. Hún er bara nokkuð snotur. Meira seinna.

18.7.09

Þá er nú orðið ansi tómlegt hérna hjá okkur.

Þá er litla fjölskyldan farin aftur til Eskilstuna. Við erum búin að eiga ógleymanlegar stundir saman undanfarnar þrjár vikur en mér finnst tíminn hafa rokið áfram. Eins og ég var búin að segja frá áður, þá fórum við með þeim á Snæfellsnesið og áttum góðan dag þar.
Við fórum síðan á Akureyri í tvo daga þann 8. og 9. júlí. Gulli og Sandra bjuggu í þrjú ár fyrir norðan og útskrifuðust frá HA 2002 og giftu sig sama sumar í Grundarkirkju í Eyjafirði. Síðan lá leið þeirra til Svíþjóðar þar sem þau hafa búið síðan við nám og störf. Það var gaman að fara með þeim norður. Miklar breytingar hafa átt sér stað á Akureyri frá þeim tíma er þau bjuggu þar, heilu hverfin hafa risið og fl.
Við litum við hjá Kristni og Siddý í kvöldkaffi og einnig komu Helga Dröfn og Lalli í örheimsókn til okkar í litlu íbúðina í Hafnarstrætinu (sem er bara dásamleg svona fyrir eina nótt, leigð út af KÍ).
Ég notaði tækifærið og fór í Quiltbúðina á Akureyri og verslaði mér þar garn (Kauni) og uppskriftir fyrir það í peysu á mig og einnig í peysu á Hildi Sögu sem er langt komin eins og sést á myndinni hér til hliðar. Skemmtilegt að prjóna hana þar sem byrjað er á hálsmáli og prjónað niður. Ótrúlega skemmtilegt að prjóna úr þessu garni þar sem einn litur rennur saman við annan og veit maður varla hvað tekur við. Einnig keypti ég í bútasumsveggteppi fyrir Hildi Sögu (sem er ekki á dagskrá að sauma fyrr en í haust þegar ég fæ herbergið hennar ÁSM aftur). Skemmtileg búð Quiltbúðin og mæli ég með því að koma þar við þó ekki sé nema til að sjá öll teppin sem hanga þar og aðra handavinnu. Í búðinni er einnig hægt að fá alls konar smáhluti eins og tölur og fl.
Gulli varð þrítugur þann 12. júli og voru tvær veislur þann 11. Fyrri var haldin í þessu líka frábæra veðri í hádeginu og síðan komu vinirnir um kvöldið. Við sátum hér úti fram á rauða nótt við eld í arni og spjall með góðar veigar.
Það er langt síðan ég færði inn pistil hér og hefur eins og að framan sést ýmislegt á daga okkar drifið. Við vinkonurnar hittumst alltaf í Sléttuhlíð einu sinni á sumri og gerðum við það núna um miðjan mánuðinn og áttum frábæran dag saman. Við Inga gengum upp eftir og vorum aðeins eina klst. á leiðinni í þvílíkum hita að það lak af okkur þegar við komum.
Síddý og Brynhildur dótturdóttir hennar komu einnig við hjá okkur og var gaman að fá að sjá þá stuttu sem er tæplega 10 mánaða dugnaðarforkur.
Ásta Sigrún er komin heim (jei, jei, jei!!!) og er alsæl með hálfa árið sitt í Melbourne, Ástralíu. Hún var 36 klukkustundir á leiðinni heim, ég hefði ekki getað þetta að ég held. Það er yndislegt að vera búin að fá hana heim. Hún náði aðeins nokkrum dögum með litlu fjölskyldunni en náði þó að fara með þeim á Harry Potter myndina ásamt Kalla og Söru. Þá vorum við afi Maggi að passa og var sú stutta bara ánægð með okkur.
Búið er að mynda okkur Ingu með litlu ljósin okkar eins og sjá má. Og einnig kom sú stutta í heimsókn með Ingömmu svo Ásta Sigrún gæti séð hana.
Eins og ég sagði ofar þá er ég að komast aftur í prjónastuð og einnig skellti ég í Chilli-sultu áðan, hún er svo falleg, bæði í pottinum og krukkunum (ha,ha,ha).
Jæja ætli ég láti þessu ekki lokið. Við sitjum hér ein við Maggi, hann með gítarinn og ég tölvuna, það er ósköp rólegt hjá okkur en krakkarnir eru væntanlegir en það vantar litlu fjölskylduna frá Eskilstuna og þá er svo tómlegt