5.5.09

Frábær helgi á Flúðum.

Það er ekki margt sem jafnast á við góða helgi í sumarbústað, þegar líður á veturinn. Við Maggi og krakkarnir höfum haft það fyrir sið að fara í sumarbústaðaferðir fyrir jólin og þá tökum við eitthvað skemmtilegt með eins og gítarinn, nótur, bækur og föndur í jólakortin og ég tala nú ekki um eitthvað gott að borða. Þessar ferðir hafa verið frábærar fyrir sálina, hugann og ég tala nú ekki um samveru fjölskyldunnar. Nú erum við færri í ferðum oft á tíðum bara við tvö við Maggi. Nú erum við að komast upp á lagið með að fara í vorferðir líka. Um síðustu helgi, sem var löng þar sem 1. maí var á föstudegi, fórum við á Flúðir. Við vorum orðin mjög þurfandi fyrir að komast úr stressi og krepputali og njóta þess að slaka á, hvíla okkur og njóta kyrrðarinnar. Kalli var á Akureyri að keppa til úrslita í Íslandsmótinu (þeir unnu gott fólk, klárir strákar) og fórum við af stað strax eftir vinnu á fimmtudegi. Þó svo að aðaláherslan væri lögð á hvíld þá tókum við með okkur verkefni til að vinna. Maggi tók með sér lærdóminn og ég ritgerðirnar sem ég er búin að vera að ýta á undan mér í of langan tíma (og tókst að klára yfirferðina) og auðvitað voru prjónarnir með.
Á föstudeginum komu svo Kalli og Sara í heimsókn til okkar og voru til laugardags.

Sara notaði tímann til að lesa undir íslenskupróf sem hún fór síðan í á mánudaginn.

Og Kalli, já próf??? Fótbolti, handbolti, körfubolti í sjónvarpinu og maður lætur slíkt ekki fram hjá sér fara. Við nutum öll ferðarinnar, hvíldarinnar og heita pottsins:-) og ég tala nú ekki um matar.

Maggi er að undirbúa matartilbúninginn á þessari mynd og sjá hvað hann er glaður. Eins og ég sagði áðan þá var þessi ferð frábær og gaman að fá krakkana í heimsókn og sjá þau ná að slaka aðeins á líka.
Við komum við í Melbænum í afmæli hjá Árna Hlyni á leiðinni heim. Alltaf notalegt að koma þangað og afmælisbarnið alsælt.


Þegar við komum heim þá blasti þetta við. Kúrileyjakirsið að komast í blóma. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Og kemur það til með að blómsta í örugglega tvær vikur í viðbót.

Og nú eru Lyklarnir mínir að byrja að springa út og þessi er að ná fullum blóma eins og sjá má hér að neðan.

Eins og sjá má hér að ofan var helgin frábær, (þó svo að veðrið hefði mátt vera betra, við fengum rigningu, haglél, rok, o.s.frv. en hvað með það) og heimkoman dásamleg og hversu þurfandi sem maður er fyrir að komast úr bænum þá er alltaf jafngott að koma heim.

2 ummæli:

  1. Fínar myndir! Bloggsíðan er svo falleg mamma, alltaf gaman að kíkja hérna inn. Ég er virkilega glöð að þið skelltuð ykkur í bústaðinn, og það er gott að sjá að það var gott og notalegt hjá ykkur- eins og er alltaf í sumarbústaðarferðum fjölskyldunnar:)

    SvaraEyða
  2. Vá hvað ég hefði verið til í að vera þarna hjá ykkur.

    Sandra

    SvaraEyða