
26.4.09
Það held ég að hann Kalli verði glaður :-)



Uppskriftin er þessi:
255 gr. spelt (fínt)
2 tsk. vínsteinslyftiduft
1/2 tsk. salt
140 gr. hrásykur (fínn)
1 egg
3 dl. bláberjajógúrt
Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið síðan jógúrt og eggi saman og hræran síðan sett út í og hræra mjög varlega, í raun bara velta þessu saman. (ég setti u.þ.b. 30 gr. af suðusúkkulaði út í)
Síðan er degið sett í muffinsform eða svona líka flott form eins og við Maggi eigum frá ömmu hans og afa, og bakað við 190°C í 25 mínútur (undir og yfirhiti ekki blástur) í miðjum ofni.
Nú er Kalli að keppa úrslitaleik með 2. flokki FH og best að fara að koma sér á staðinn. Það held ég hann verði glaður þegar hann kemur heim í ilminn af nýbökuðum "bláberja"muffins.
25.4.09
Vorið er komið í garðinn okkar
Jæja þá er vorið komið í garðinn okkar. Mér finnst stutt í sumarið þegar Kúrileyjakirsið okkar fer að bruma og skjóta út blómknúppum sem eiga síðan eftir að blómstra fyrir okkur langt fram í júní. Er það ekki fallegt?
Páskaliljurnar komnar vel af stað og eru svo yndislegar þegar gengið er upp að húsinu.
Í garðinum okkar í Corbridge voru laukar sem okkur fannst svo fallegir þeir heita Snow drops. Ég rakst síðan á þessa tegund í Garðheimum fyrir tveimur árum og setti niður. Í fyrra komu einir þrír upp og nú eru þessir komnir upp og blómstra heldur betur, hvít blóm á löngum stilki.
Og auðvitað reyndum við að gera páskalegt hjá okkur í apríl og keyptum þessar páskaliljur til að hafa við innganginn. Þær eru ótrúlega harðgerðar, eins og veðrið er búið að vera leiðinlegt þá standa þær sig ótrúlega vel.
Við erum búin að klippa allan trjágróður og runna í garðinum. Það er samt mikil vinna sem bíður okkar. Ég er samt frekar varkár með vorverkin þar sem maður veit aldrei hvort við fáum hret eða ekki. Við bíðum alla vega með að taka ofan af beðum og annað þar til eftir miðjan maí. Þá tæmum við safnkassana og fáum fína mold í beðin. Einnig ætlum við að tyrfa á ýmsum stöðum í garðinum þetta sumarið og reyna að minnka beðin.




21.4.09
Ný della ha, ha, ha....
Jæja er ný della í uppsiglingu hjá mér? Nei, nei það er bara svo skemmtilegt að búa til hluti og ég tala nú ekki um þegar vel tekst til. Síðasta daginn í páskafríinu skelltum við okkur í bæinn ég og hún mamma mín. Við ákváðum að labba Skólavörðustíginn og skoða allar þessar fínu hönnuði sem þar hafa hreiðrað um sig. Við fórum á Mokka og fengum okkur kaffi og vöfflur og áttum þarna frábæran dag þar sem endalaust augnakonfekt bar fyrir. En á þessari leið okkar fórum við fram hjá versluninni Litir og föndur og fórum þar inn. Þá datt ég í deildina með öllu þessu fallega dóti til skartgrípagerðar og viti menn, ég datt í það!!!
Það sem hér á eftir kemur er svo það sem er tilbúið úr því efni sem kom heim úr þessari ferð okkar mæðgna. Þessir eyrnalokkar eru náttúrulega í mínum litum þ.e. silfur og svart:-)
Ég er líka alltaf að reyna að vera djörf og fannst ég virkilega vera það þegar ég valdi þessar rauðu kúlur sem eru handútskornar.
Og svo er bara að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni. Þessir lokkar eru allir stakir. Mér finnst mjög skemmtilegt að vera með einn lokk sem er dálítið töff á móti litlum lokkum sem láta lítið yfir sér. En sem sagt hér er afrakstur helgarinnar og hvorki meira né minna en tvö blogg í dag þrátt fyrir magakveisu.



Þá er hann tilbúinn og brauðkörfuklútur í stíl!
18.4.09
Sumardúkurinn góði
Jæja þá er ég búin með blokkina sem ég ætla að hafa á miðjunni á dúknum, bara nokkuð sátt nema með miðjuna :-( finnst hún dálítið úr lit. Er þetta kannski páskadúkur? Nei er það?
En nú er bara spurning hvort ég noti þetta efni til þess að hafa utan með? Mér finnst það mjög fallegt en ætla að sofa á því í nótt. Hvað finnst ykkur sem kannski lesið þetta?

Sumardúkur

Dúkurinn á að vera um 70 x 70 sm. Aldrei að vita hvernig þetta verður hjá mér.
13.4.09
Jarðarberjastelpan hennar ömmu sinnar og fl.
Er hún ekki dásamleg elsku litla stúlkan mín í jarðarberjapeysunni sinni. Hún passar vel á hana heldur ermasíð en hún á eftir að vaxa í hana.


Var að fá þessar myndir af Hildi Sögu. Þarna er hún á leikvellinum og komin í vestið. Það virðist passa vel á dömuna. Er hún ekki bara fallegust?


Fallega fjölskyldan í Eskilstuna. Þarna eru þau öll Sandra, Hildur Saga og Gulli, öll í lopapeysum sem ég hef prjónað á þau í gegnum tíðina. Myndin er tekin í garðinum þeirra, þennan dag var um 19°hiti og þau grilluðu og borðuðu úti um kvöldið ásamt þremur systrum Söndru og einum mági.
Og svo er það löberinn góði. Ég skar fyrst ferningana 2,5" X 8" og þeir voru allir saumaðir saman í eina lengju. Síðan er saumað beint á vatt og bak og þarna er ég búin með yfirborðið
7.4.09
Næst á dagskrá...
Jæja þá er ég búin með yfirborðið á teppinu góða sem ég byrjaði að sauma á námskeiðinu á Selfossi. Það er mjög fallegt miðað við litavalið sem var alls ekki mitt og ég hefði aldrei látið mér detta í hug að kaupa þessa liti í það, kemur mér skemmtilega á óvart. Ég ætla aðeins að hvíla mig á því og setja það saman eftir páskana, vantar að kaupa vatt og efni í kantinn, bindinguna og bakið. Læt það bíða aðeins. En...
þessi fallegi löber er næstur á dagskrá hjá mér. Hann er hannaður af Guðrúnu Erlu sem var með námskeiðshelgina góðu.




4.4.09
Það passar örugglega er það ekki?

Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)