26.4.09

Það held ég að hann Kalli verði glaður :-)

Svona skó sá ég á heimasíðunni hennar Hellenar og ákvað að prjóna eina slíka handa litlu Magnúsar og Siggudóttur. Ég ætla nefnilega að kíkja í heimsókn til þeirra í vikunni og taka litlu prinsessuna út, skilst að hún dafni heldur betur vel.

Tómatar eru eitt af því besta sem ég get hugsað mér og nota þá með öllum mat og ég tala nú ekki um salöt. Hún Ásta, tengdamóðir mín segir að það eigi aldrei að geyma tómata í ísskáp, heldur á eldhúsborðinu í góðri birtu eða jafnvel úti í glugga, þá verði þeir rauðir, sætir og safaríkir. Eru þeir ekki flottir þessir plómu- og kirsuberjatómatar í eldhúsglugganum?

Í morgun komst ég að því þegar ég leit inn í ísskápinn að ferna með bláberja Húsavíkurjógúrt hafði gleymst aftast í honum. Útrunnin fyrir all nokkru og það veit á aðeins eitt, hún verður ekki snædd!! Ég tók mig því til og bakaði muffins úr henni, en ég á mjög erfitt með að henda mat og gat þannig nýtt þessa líku fínu bláberjajógúrt.
Uppskriftin er þessi:
255 gr. spelt (fínt)
2 tsk. vínsteinslyftiduft
1/2 tsk. salt
140 gr. hrásykur (fínn)
1 egg
3 dl. bláberjajógúrt
Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið síðan jógúrt og eggi saman og hræran síðan sett út í og hræra mjög varlega, í raun bara velta þessu saman. (ég setti u.þ.b. 30 gr. af suðusúkkulaði út í)
Síðan er degið sett í muffinsform eða svona líka flott form eins og við Maggi eigum frá ömmu hans og afa, og bakað við 190°C í 25 mínútur (undir og yfirhiti ekki blástur) í miðjum ofni.
Nú er Kalli að keppa úrslitaleik með 2. flokki FH og best að fara að koma sér á staðinn. Það held ég hann verði glaður þegar hann kemur heim í ilminn af nýbökuðum "bláberja"muffins.

3 ummæli:

  1. Dóttir þín í Melbourne varð bara ótrúlega öfundsjúk því hún veit hvað möffinsið er gott:)
    ÁFRAM FH!!!

    SvaraEyða
  2. Sigga! Ég finn næstum ilminn af múffunum! Fór að lesa síðuna sem þú er með á listanum þínum sem heitir "Down to earth" - gaman að lesa hann, ætla að fylgjast með honum.
    Kveðja, Hellen

    SvaraEyða
  3. Hi from Italy
    :)

    SvaraEyða