25.4.09

Vorið er komið í garðinn okkar

Jæja þá er vorið komið í garðinn okkar. Mér finnst stutt í sumarið þegar Kúrileyjakirsið okkar fer að bruma og skjóta út blómknúppum sem eiga síðan eftir að blómstra fyrir okkur langt fram í júní. Er það ekki fallegt?

Páskaliljurnar komnar vel af stað og eru svo yndislegar þegar gengið er upp að húsinu.

Í garðinum okkar í Corbridge voru laukar sem okkur fannst svo fallegir þeir heita Snow drops. Ég rakst síðan á þessa tegund í Garðheimum fyrir tveimur árum og setti niður. Í fyrra komu einir þrír upp og nú eru þessir komnir upp og blómstra heldur betur, hvít blóm á löngum stilki.

Og auðvitað reyndum við að gera páskalegt hjá okkur í apríl og keyptum þessar páskaliljur til að hafa við innganginn. Þær eru ótrúlega harðgerðar, eins og veðrið er búið að vera leiðinlegt þá standa þær sig ótrúlega vel.
Við erum búin að klippa allan trjágróður og runna í garðinum. Það er samt mikil vinna sem bíður okkar. Ég er samt frekar varkár með vorverkin þar sem maður veit aldrei hvort við fáum hret eða ekki. Við bíðum alla vega með að taka ofan af beðum og annað þar til eftir miðjan maí. Þá tæmum við safnkassana og fáum fína mold í beðin. Einnig ætlum við að tyrfa á ýmsum stöðum í garðinum þetta sumarið og reyna að minnka beðin.

2 ummæli:

  1. Hlakka mikið til að sjá garðin í sumar í fullum skrúða:) Hann er alltaf svo fallegur!
    Páskaliljurnar eru alveg ótrúlega fallegar, en mér finnast snowdrops alltaf svo fallegir líka.

    Uppáhalds er þó morgunsólin held ég (heitir það ekki?)og kúrileyjakirsið (sem er klárlega orð sem þú hefur búið til sjálf haha:)) Knús úr 2320 orðum!

    SvaraEyða
  2. Þau heita reyndar hádegisblóm elskan og eru falleg. Gangi þér vel með ritgerðina.
    Mamma

    SvaraEyða